Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu undirrituð
Drög að reglugerðinni voru kynnt í samráðsgátt í janúar sl. og hafa þau tekið breytingum með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu á samráðstíma.
Umsagnaraðilar á samráðsgátt voru alls 82 talsins, þar á meðal voru einstaklingar, sveitarfélög, fjallskilastjórnir, félaga- og hagsmunasamtök auk opinberra stofnana.
M.a. voru tekin úr reglugerðinni leiðbeinandi viðmið vegna nýtingar lands í brattlendi. Lögð var áhersla á að skerpa skil í hugtakanotkun í reglugerðinni auk skila á milli tilmæla, reglna og leiðbeininga. Mat á ástandi og þróun lands verður unnið í samræmi við markmið laga um landgræðslu þar sem kveður á um að nýting lands taki mið af ástandi. Reglugerðin fjallar um landnýtingu með búfjárbeit, ferðamennsku, útivist, ræktun og byggingu innviða.
Jarðvegur geymir bæði mikla líffræðilega fjölbreytni, og mikinn kolefnisforða, því er verndun jarðvegs eitt af lykilatriðum varðandi verndun Jarðarinnar. Í reglugerðinni kveður á um að landnýting sem leiðir til hnignunar lands geti ekki talist sjálfbær landnýting. Gert er ráð fyrir að stór samfelld svæði í mjög slæmu ástandi (C-flokkur) verði ekki skilgreind sem beitiland fyrir búfé og að nýting á slíku landi geti ekki talist sjálfbær. Í slíkum tilvikum leiðbeinir Land og skógur eiganda eða rétthafa lands um gerð landbótaáætlunar. Þetta á við um allar tegundir landnýtingar sem reglugerðin nær til.
Reglugerðin markar tímamót. Hún er leiðarvísir um hvernig best megi umgangast land til að sem minnst tapist af verðmætum jarðvegi og að sem mest endurheimtist af þeim vistkerfum sem hafa þegar tapast. Í því geta jafnframt falist sóknarfæri fyrir bændur og aðra rekstraraðila þegar staðfesting um sjálfbæra landnýtingu liggur fyrir.