Þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi í deiglunni
Aukinn varnarviðbúnaður, nýjar varnaráætlanir Atlantshafsbandalagsins og þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi voru í brennidepli á fundi yfirmanns herstjórnarmiðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk, Douglas G. Perry flotaforingja, og Jónasar G. Allanssonar, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem fram fór í síðustu viku.
Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins er snúa að auknu eftirliti, fælingu og vörnum á Norður-Atlantshafi og mikilvægi Íslands í því samhengi voru sömuleiðis til umræðu á fundinum, sem og frekari efling herstjórnarmiðstöðvarinnar og framtíðarverkefni hennar en þar starfa nú þegar nokkrir íslenskir sérfræðingar á vegum utanríkisráðuneytisins.
Á meðan heimsókn sinni til Íslands stóð heimsótti Perry öryggissvæðið í Keflavík til að kynna sér aðstæður og starfsemina sem þar fer fram, og átti fund með varnarmálasviði Landhelgisgæslunnar.
Herstjórnarmiðstöðin í Norfolk (Joint Force Command Norfolk) ber ábyrgð á aðgerðum Atlantshafsbandalagsins í Norður-Atlantshafi og þ.m.t. á Íslandi.