Ný reglugerð skýrir hlutverk í kringum mótun loftslagsaðgerða
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um verkefnisstjórn og áætlanir á sviði loftslagsmála. Gert er ráð fyrir að við setningu reglugerðarinnar verði skipuð ný verkefnisstjórn loftslagsaðgerða.
Í lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál er kveðið á um að ráðherra beri ábyrgð á gerða tveggja áætlana á sviði loftslagsmála. Annars vegar aðgerðaáætlun í loftslagsmálum (AÁL) og hins vegar áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum (AÐL; aðlögunaráætlun). Samkvæmt lögunum skipar ráðherra verkefnisstjórn vegna gerðar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem mótar tillögur að aðgerðum og hefur umsjón með að þeim sé hrundið í framkvæmd.
Fráfarandi verkefnisstjórn hefur nýlokið við afgreiðslu uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem kynnt verður á næstunni og undirbúningur aðlögunaráætlunar hefur verið í gangi undanfarinn ár. Sjá niðurstöður samráðsferlis og skýrslu stýrihóps vegna aðlögunaráætlunar.
Reglugerðin þjónar m.a. þeim tilgangi að skýra eftirfarandi:
- Að verkefnisstjórn hafi umsjón með gerð beggja áætlana;
- Að í stjórninni hafi sæti fulltrúar allra ráðuneyta auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga;
- Lögin kveða ekki á um að öll ráðuneyti eigi fulltrúa . Ljóst þykir þó að umfang málaflokksins hefur vaxið mikið og hafa fleiri fulltrúar bæst við verkefnisstjórnina á undanförnum árum. Mikilvægt er að öll ráðuneyti hafi aðkomu að mótun og samþykkt loftslagsaðgerða og sendir slík skipun skýr skilaboð um að loftslagsmálin krefjist breiðs eignarhalds;
- Hlutverk og skipulag aðlögunaráætlunar sem eru ekki skilgreind í núverandi lögum;
- Aðkomu starfsfólks Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands að vinnu verkefnastjórnar og gerð áætlananna og ráðgefandi hlutverk Orkustofnunar.
Vinna við reglugerðina er hluti af því verkefni að styrkja stjórnsýslu loftslagsmála og helst í hendur við áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál sem var síðast á þingmálaskrá 154. löggjafarþings.
Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna reglugerðarinnar í samráðsgátt stjórnvalda er til 5. júní nk.
Reglugerð um verkefnisstjórn vegna gerðar og eftirfylgni áætlana á sviði loftslagsmála