97% þykir vænt um íslenskuna: Niðurstöður viðhorfskönnunar
Niðurstöður spurningakönnunar um viðhorf til íslensku benda til þess að almennt sé fólk mjög jákvætt í garð íslenskunnar, hafi mikla trú á eigin getu en vilji jafnframt bæta færni sína. Viðhorf svarenda reyndist fremur jafnt þegar horft er til aldurs, menntunar, búsetu og tekna.
Viðhorfskönnunin er liður í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2024–2026 sem nýlega var samþykkt sem þingsályktun á Alþingi.
„Þessar niðurstöður gefa okkur fróðlegar vísbendingar um viðhorf þjóðarinnar til tungumálsins og ég gleðst innilega yfir því að svo margir lýsi yfir væntumþykju og trú á framtíð íslenskrar tungu. Ástríða fyrir íslenskunni er það sem mun tryggja þrótt hennar – og það er merki um metnað fyrir hönd tungumálsins okkar að fólk hafi á því skoðun," segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Helstu niðurstöður könnunarinnar:
• 97% svarenda þykir vænt um íslenskuna, aðeins 2% bera engan sérstakan hug til hennar og 1% er nokkuð eða alveg sama.
• 96% svarenda tilgreindu að íslenska væri mikilvæg í þeirra daglega lífi, 90% telja að það verði hún einnig eftir 10 ár og 93% svarenda telja það miklu skipta að íslenska verði töluð á Íslandi í framtíðinni.
• 91% svarenda sögðust hafa mikla trú á íslenskugetu sinni.
• 89% svarenda kváðust nota íslensku mikið í störfum sínum.
• 71% svarenda segjast pæla mikið í tungumálinu en 23% segjast pæla í meðallagi mikið í því.
• 70% svarenda segja ensku of áberandi í íslensku samfélagi, 27% að enska sé hæfilega áberandi.
• 66% svarenda hafa miklar áhyggjur af áhrifum ensku á færni barna og ungmenna í íslensku, 24% í meðallagi og 10% svarenda hafa litlar eða engar áhyggjur.
Maskína lagði könnunina fyrir dagana 22.–26. apríl og voru þátttakendur tæplega 1100 talsins. Þjóðgátt Maskínu er lögð fyrir á netinu með tilviljunarúrtaki úr Þjóðskrá. Svarendur koma alls staðar að af landinu og eru 18 ára eða eldri. Svör eru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands um aldur, kyn, búsetu og menntun.
Unnið er að hliðstæðri gagnaöflun um viðhorf fleiri hópa til íslenskunnar, til að mynda meðal barna og ungmenna og innflytjenda.