Ísland stenst skuldbindingar um samdrátt í losun á árunum 2021 og 2022
Landsskýrsla Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis á árunum 1990 til 2022
Ísland uppfyllir skuldbindingar sínar um samdrátt í samfélagslosun og nettólosun vegna landnotkunar á árunum 2021 og 2022. Þetta sýnir landsskýrsla Íslands ársins 2024 um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis1, sem Umhverfisstofnun skilaði nýlega til Evrópusambandsins (ESB).
Losun Íslands má almennt skipta í þrjú skuldbindingarkerfi; samfélagslosun, landnotkun og viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Samfélagslosun inniheldur aðallega losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, jarðvarmavirkjunum, kælimiðlum og úrgangi. Losun frá landnotkun á við um alla losun og alla bindingu vegna hvers konar landnotkunar. Undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fellur losun frá stóriðju, flugi og skipaflutningum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Á tveimur fyrstu árum Parísarsamningsins, 2021 og 2022 var samfélagslosun undir árlegri losunarúthlutun Íslands skv. skuldbindingum og nettólosun vegna landnotkunar dróst saman m.v. viðmiðunartímabil. Útlit er því fyrir að Ísland muni standast skuldbindingar sínar gagnvart ESB um samdrátt í samfélagslosun og nettólosun vegna landnotkunar á þessum árum. Endanlegt mat á stöðu Íslands gagnvart skuldbindingunum um samdrátt í losun á tímabilinu 2021-2025 mun liggja fyrir árið 2027 þegar uppgjör tímabilsins mun eiga sér stað.
Að því er fram kemur í skýrslunni þá var heildarlosun Íslands2 12,4 milljón tonn CO2-íg. frá öllum þremur kerfunum og jókst hún um tæplega 1% milli áranna 2021 og 2022. Samfélagslosun Íslands3 var 2,8 milljón tonn CO2-íg. og stóð hún í stað þrátt fyrir að aukning hafi verið frá vegasamgöngum, fiskimjölsverksmiðjum og eldsneytisbruna til orkuvinnslu þá var mikill samdráttur frá fiskiskipum og kælimiðlum sem vegur á móti aukningunni í öðrum geirum. Losun frá landnotkun var 7,8 milljón tonn CO2-íg. og jókst um tæplega 1% milli áranna 2021 og 2022. Smávægileg breyting var frá öllum losunarflokkum landnotkunar. Losun frá ræktarlandi, mólendi og votlendi jókst lítillega og binding vegna skógræktar jókst einnig lítillega milli 2021 og 2022, en hefur hún aukist verulega, eða 17-faldast frá 1990. Losun frá staðbundnum iðnað á Íslandi, sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS), jókst um tæplega 2% á tímabilinu og má að mestu leyti rekja það til aukningar í losun vegna kísilmálmframleiðslu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er ánægjuefni að Ísland standist skuldbindingar sínar varðandi samfélagslosun og landnotkun. Enn er þó mikið verk óunnið og ófá verkefni framundan í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og svo tryggja megi enn frekari samdrátt í losun. Þessar niðurstöður eru þó sannarlega hvati til aukins metnaðar og fleiri góðra verka.“
Ný gagnvirk samantektarskýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefur verið gefin út á heimasíðu Umhverfisstofnunar þar sem er að finna helstu upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi ásamt umfjöllun um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Skipting samfélagslosunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 2005 til 2022
1Landsskýrsla Íslands nær til sögulegrar losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis í losunarbókhaldi Íslands. Nýjustu landskýrslu Íslands var skilað í apríl 2024 og er að finna hér.
2Losun vegna orku, iðnaðar og efnanotkunar, landbúnaðar, úrgangs og landnotkunar. Losun vegna alþjóðsamgagna er undanskilin.
3Samfélagslosun ríkja var áður kölluð „Losun á beinni ábyrgð ríkja“ en þessi losun fellur undir svokallaða beina ábyrgð ríkja samkvæmt reglugerð (ESB) 2018/842 um sameiginlega ábyrgð (e. Effort Sharing Regulation; ESR).