Hoppa yfir valmynd
29. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðaöryggismál til umræðu á fjölmennri ráðstefnu varnarmálaráðherra í Brussel

Frá The Schuman Security and Defence Forum í Brussel. - mynd© Melanie Wenger/ BR&U

Yfir sextíu varnarmálaráðherrar og fulltrúar alþjóðastofnanna víðsvegar að úr í heiminum komu saman til fundar í Brussel í gær og í dag á ráðstefnu Evrópusambandsins um öryggis- og varnarmál. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í ráðstefnunni og fundaði jafnframt með Josep Borrel, utanríkismálastjóra ESB, og Anatolie Nosatîi, varnarmálaráðherra Moldóvu.  

Þetta var í annað skiptið sem öryggismálaráðstefna Evrópusambandsins, The Schuman Security and Defence Forum, er haldin en henni er ætlað að skapa vettvang fyrir umræðu um öryggis- og varnarmál með þátttöku ríkja innan og utan Evrópu. Meðal umræðuefna voru mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu um uppbyggingu í öryggis- og varnarmálum, viðbrögð við fjölþáttaógnum, netöryggi og mikilvægi jafnréttis á sviði öryggis- og varnarmála. 

„Mikil áhersla var lögð á þá alvarlegu stöðu sem innrásarstríð Rússlands hefur skapað, ekki aðeins fyrir Evrópu heldur einnig fyrir alþjóðakerfið og þær reglur sem liggja til grundvallar friðsamlegum samskiptum ríkja. Það kom skýrt fram í umræðunni hvernig öryggishagmunir ríkja innan og utan Evrópu eru samtengdir. Átök og spenna á einum stað getur smitað útfrá sér eins og við sjáum svo skýrt í tengslum við Úkraínu og á öðrum stöðum,“ segir Þórdís Kolbrún.   

Á fundi utanríkisráðherra með Josep Borrel, utanríkismálastjóra ESB, var rætt um stöðu öryggismála í Evrópu, stuðning við Úkraínu, átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og verkefni á sviði öryggis- og varnarmála. Á fundi með Anatolie Nosatîi, varnarmálaráðherra Moldóvu, voru umbætur í öryggis- og varnarmálum og samvinnuna við Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið efst á baugi.  

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Anatolie Nosatîi varnarmálaráðherra Moldóvu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum