Hoppa yfir valmynd
29. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Áskoranir í alþjóðamálum og 30 ára afmæli EES-samningsins í brennidepli í Brussel

Dominique Hasler, utanríkisráðherra Lichtenstein, Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Hadja Lahbib, utanríkisráðherra Belgíu, og Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB. - myndEvrópusambandið

EFTA-ríkin innan EES og Evrópusambandið (ESB) standa sameinuð í einörðum stuðningi sínum við Úkraínu. Þetta kom fram á fundi utanríkisráðherra Íslands, Noregs, Liechtenstein, Belgíu og fulltrúa Evrópusambandsins í Brussel í gær. 

Á fundinum greindi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra einnig frá nýlegri heimsókn sinni til Georgíu og áhyggjum sínum af þróun mála þar. Þá var farið yfir hörmulega stöðu fyrir botni Miðjarðarhafs og mikilvægi þess að farið sé að alþjóðalögum. Ráðherra ítrekaði jafnframt ákall um tafarlaust vopnahlé og lagði áherslu á frekari aðgerðir í þágu friðar, og til þess sé tveggja ríkja lausnin eina leiðin. 

Fundur utanríkisráðherranna og fulltrúa ESB var haldinn í tengslum við fund EES-ráðsins sem fór fram í gær. Á fundi EES-ráðsins var 30 ára afmæli EES-samningsins fagnað. Ísland fer nú með formennsku í EES-samstarfinu af hálfu EFTA-ríkjanna. Í ávarpi sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á að EES-samningurinn hafi skapað varanlega umgjörð um samskipti EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins og mikilvægt að EFTA-ríkin innan EES séu fullir þátttakendur í frekari þróun innri markaðarins. Samstarfið væri sömuleiðis mikilvægt fyrir viðnámsþrótt og hagvarnir ríkjanna á ólgutímum.

Á fundinum var rætt um hvernig aðgerðir í loftslagsmálum og bætt samkeppnisfærni ríkjanna á evrópska efnahagssvæðinu þurfi að fara saman. Lagði ráðherra áherslu á að aðgerðir verði að vera trúverðugar út frá tæknilausnum og framboði á grænni orku.

„Þessar aðgerðir skapa ríka hvata til orkuskipta, en hættan er sú ef tæknilausnir og græn orka eru ekki til staðar, geta þessar aðgerðir leitt til mikils kostnaðarauka fyrir fólk og fyrirtæki með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á samkeppnishæfni en án árangurs í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þetta getur skapað bakslag í baráttunni ef við erum ekki raunsæ. Við þurfum að hafa samfélagið með í þessum breytingum“, segir Þórdís Kolbrún.

Afmæli EES - framtíð innri markaðarins til umræðu

Utanríkisráðherra tók jafnframt þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu í tilefni 30 ára afmælis EES-samningsins. 

Á ráðstefnunni var rætt um hvernig breytt umhverfi í alþjóðamálum undirstriki mikilvægi náins samstarfs EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins andspænis nýjum ógnum og áskorunum. EES-samstarfið byggi á sameiginlegum gildum sem standa þurfi vörð um til að tryggja það mikilvæga frelsi sem samningurinn skapar borgurum og atvinnulífi.

Í umræðunni á ráðstefnunni lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að tryggja að breytingar á innri markaðnum leiði ekki til nýrra hindranna á Evrópska efnahagssvæðinu.

  • Áskoranir í alþjóðamálum og 30 ára afmæli EES-samningsins í brennidepli í Brussel - mynd úr myndasafni númer 1
  • Dominique Hasler, utanríkisráðherra Lichtenstein, Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Hadja Lahbib, utanríkisráðherra Belgíu, og Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, í pallborðsumræðum á ráðstefnu í tilefni 30 ára afmælis EES-samningsins. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur til máls í pallborðsumræðum á ráðstefnu í tilefnu 30 ára afmælis EES-samningsins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum