Hoppa yfir valmynd
29. maí 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Mælt fyrir nýrri ferðamálastefnu: Skýr framtíðarsýn lykilatvinnugreinar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra - mynd

Nýverið tók Alþingi til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengda.

Vinnan við stefnuna hefur verið eitt af forgangsmálum menningar- og viðskiptaráðherra sem einnig fer fyrir ferðamálum en þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hér á landi hefur aukist verulega samhliða vexti greinarinnar og er í dag stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar. Í því samhengi er afar mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu og að unnið sé samhent að vel skilgreindum og markvissum aðgerðum til næstu ára til að treysta undirstöður greinarinnar og tryggja sjálfbærni hennar og stöðugleika til lengri tíma.

 

Yfirgripsmikil samvinna fagfólks

Í maí 2023 voru skipaðir sjö starfshópar sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu. Verkefnið í heild sinni hefur verið leitt af stýrihóp á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis í samstarfi við lykilaðila á sviði ferðaþjónustu. Sett var upp sérstök vefsíða þar sem allar upplýsingar um verkefnið er að finna (www.ferdamalastefna.is). Starfshópunum sjö var ætlað að ná utan um alla þætti ferðaþjónustu, þ.e. sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu.

Lagt var upp með að hafa verkefnið um gerð ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun opið og gagnsætt á öllum stigum, og að unnið yrði í virku samráði við þá sem að ferðaþjónustu koma með einum eða öðrum hætti. Er því um stefnumótun að ræða sem kemur jafnt frá stjórnvöldum og atvinnugreininni og endurspeglar sameiginlegar áherslur og framtíðarsýn. Alls komu um 100 manns beint að vinnu við stefnuna í gegnum sjö starfshópa og stýrihóp auk þess sem haldnir voru  opnir samtalsfundir um land allt.

Framtíðarsýnin sem stefnan byggir á er að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Að hérlendis verði til staðar arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð, og sem sé þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun. Að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og verði til lengri tíma ein af grundvallarstoðum íslensks efnahagslífs.

Með ferðamálastefnunni er lögð fram aðgerðaáætlun með 43 skilgreindum aðgerðum undir 5 stoðum til að fylgja eftir framtíðarsýn, áherslum og markmiðum hennar.

Meðal aðgerða má nefna:

  • Markviss og viðvarandi markaðssetning á Íslandi sem áfangastað
  • Innleiðing álagsstýringar á ferðamannastöðum
  • Breytt fyrirkomulagi á gjaldtöku af ferðamönnum
  • Aukið eftirlit með heimagistingu og hert skilyrði
  • Grunninnviðir fyrir rannsóknir, greiningu og stefnumótun í ferðaþjónustu
  • Uppbygging millilandaflugvalla styðji við dreifingu ferðamanna
  • Endurskoðun á regluverki fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skilvirkara eftirlit
  • Fjölgun fyrirtækja með umhverfis- og/eða sjálfbærnivottanir
  • Efling náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig

 

2023 metár í landsframleiðslu

  • Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2023 nam 8,8% samkvæmt ferðaþjónustureikningum Hagstofunnar, og hefur aldrei verið stærri.
  • Um 23 þúsund einstaklingar störfuðu við ferðaþjónustu á Íslandi árið 2023.
  • Heildarneysla ferðamanna hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári, eða rúmlega 845 milljarðar króna.

„Þó jákvæðar tölur hafa yljað okkur þegar vinna við ferðamálastefnuna hófst þá kunna að vera blikur á lofti.  Náttúran er eitt okkar mesta djásn og erfiðasti andstæðingurinn ef svo ber undir - og samkeppnin þegar kemur að alþjóðlegri ferðaþjónustu er mjög hörð. Þessi stefna er okkar áttaviti fyrir eina af lykilatvinnugreinum landsins. Hér er skýr framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu lögð fram með vel skilgreindum og markvissum aðgerðum til að treysta undirstöður greinarinnar og tryggja sjálfbærni hennar og stöðugleika til lengri tíma,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og  viðskiptaráðherra.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum