Hoppa yfir valmynd
30. maí 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi meðal áherslumála á 77. þingi WHO

Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi meðal áherslumála á 77. þingi WHO - myndStjórnarráðið

Sýklalyfjaónæmi er eitt af helstu umfjöllunarefnunum á 77. þingi Alþjóðaheilbrigðis­mála­stofnunarinnar (WHO) sem nú stendur yfir í Genf. Sýklalyfjaónæmi er alþjóðlegt heilbrigðisvandamál sem ógnar heilsu manna og dýra, matvælaframleiðslu og umhverfi. Áætlað er að um 1,27 milljónir dauðsfalla á heimsvísu árið 2019 hafi verið tengd sýklalyfjaónæmi, og ef ekkert er að gert, gætu þessi dauðsföll orðið allt að 10 milljónir á ári fyrir árið 2050.

Ísland ásamt hinum Norðurlandaþjóðunum leggja mikla áherslu á þetta mál á þinginu og hafa unnið að sameiginlegri yfirlýsingu með Eystrasaltsríkjunum, þar sem áhersla er lögð á mikilvægi svæðisbundins samstarfs í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Norðurlandaþjóðirnar hafa langa reynslu af samstarfi í þessum málaflokki, meðal annars í gegnum Norrænu ráðherranefndina. Auk þess taka Norðurlöndin undir ávarp Evrópusambandsins (EU) sem kallar eftir aukinni alþjóðlegri samvinnu og fjármögnun til að vinna gegn sýklalyfjaónæmi. Evrópusambandið leggur áherslu á nauðsyn þess að þróa ný sýklalyf og tryggja aðgang að þeim fyrir alla, sérstaklega í fátækari löndum þar sem áhrif sýklalyfjaónæmis eru mest. 

Skýrar aðgerðaáætlanir nauðsynlegar

Á þinginu er m.a. rætt er um mikilvægi þess að auka rannsóknar- og þróunarstarf, bæta aðgengi að sýklalyfjum og nauðsyn þess að hver þjóð eigi sér öfluga og fjármagnaða innlenda aðgerðaáætlun. Íslensk stjórnvöld samþykktu fyrr á þessu ári áætlun um víðtækar aðgerðir hér á landi til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir ómetanlegt að aðgerðaáætlun til að sporna gegn sýklalyfjaónæmi liggi nú fyrir hér á landi. „Þarna eru skýrar tillögur og markmið með kostnaðargreindum verkefnum og skilgreindum ábyrgðaraðilum. Útbreiðsla sýklalyfjaónæmra baktería er enn sem komið er minni hér á landi en í mörgum öðrum löndum en hefur aukist á undanförnum árum. Mikilvægt er að Ísland haldi góðri stöðu sinni til að tryggja öryggi sjúklinga, standa vörð um starfsemi heilbrigðis- og umönnunarstofnana og sporna við auknum kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur sýklalyfjaónæmis."

Sérstök umræða um sýklalyfjaónæmi fer fram á þingi WHO föstudaginn 31. maí. Umræðan fer fram í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í haust þar sem sýklalyfjaónæmi verður einnig til umfjöllunar.

Hægt er að fylgjast með fundinum 31. maí í beinu streymi og hefst hann kl. 15.00 að íslenskum tíma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta