Hoppa yfir valmynd
31. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 31. maí 2024

Heil og sæl,

Yfirlit yfir störf sendiskrifstofa okkar um víða veröld í vikunni kemur hér, ritað í rigningunni í Reykjavík.

Ekkert lát er á jarðhræringum á Reykjanesskaga og á miðvikudag hófst nýtt eldgos í Sundhnúkagígaröðinni. Utanríkisþjónustan lætur ekki sitt eftir liggja að koma boðum áleiðis til umheimsins um áhrif gosvirkninnar á ferðalög hingað til lands, sem í þessu tilfelli eru engin.

Vika utanríkisráðherra hófst á árlegri framlagaráðstefnu fyrir Sýrland og grannríki sem haldin var í Brussel á mánudag. Þar tilkynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra um framlög Íslands næstu þrjú árin en þau skipast á milli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), svæðasjóða OCHA fyrir Líbanon og Sýrland og stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjanafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women).

„Bág staða almennra borgara í Sýrlandi er mikið áhyggjuefni, þar sem þrír af hverjum fjórum íbúum landsins eru í brýnni þörf fyrir mannúðaraðstoð,“ segir Þórdís Kolbrún. „Viðvarandi og óhindrað mannúðaraðgengi í Sýrlandi og á svæðinu er afar mikilvægt. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja og veitir mannúðaraðstoð þar sem þörfin er brýnust.“ sagði Þórdís Kolbrún af þessu tilefni.

Fundur utanríkisráðherra EFTA-ríkjanna og fulltrúa Evrópusambandsins fór einnig fram í Brussel á miðvikudag. Á fundinum var heilmargt til umræðu, meðal annars stuðningur ríkjanna við varnarbaráttu Úkraínu, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs auk aðgerða í loftslagsmálum. Fundurinn var haldinn í tengslum við fund EES ráðsins þar sem haldið var upp á 30 ára afmæli EES-samningsins. Tók ráðherra jafnframt þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu sem haldin var í tilefni afmælisins og lagði þar áherslu á mikilvægi þess að tryggja að breytingar á innri markaðnum leiði ekki til nýrra hindrana á Evrópska efnahagssvæðinu. 

Yfir sextíu varnarmálaráðherrar og fulltrúar alþjóðastofnanna víðsvegar að úr í heiminum komu saman til fundar í Brussel í á miðvikudag á ráðstefnu Evrópusambandsins um öryggis- og varnarmál. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í ráðstefnunni og fundaði jafnframt með Josep Borrel, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, og Anatolie Nosatîi, varnarmálaráðherra Moldóvu.  

Í dag fór fram óformlegur fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Prag. Þar var stuðningur við Úkraínu efsta mál á dagskrá.

Áður en fundurinn hófst funduðu Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um sameiginlegar áskoranir og áherslur.

Langtímastuðningur við Úkraínu var einnig á dagskrá hjá Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra en í dag skrifuðu hann og Volodomír Selenskí forseti Úkraínu undir samning um langtímastuðning Íslands í varnarbaráttunni gegn Rússlandi. 

Þá beinum við sjónaukanum að sendiskrifstofunum. 

Fastafulltrúi Íslands gagnvart Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Helga Hauksdóttir, flutti í gær tvö ávörp á vikulegum fundi stofnunarinnar; annað um þróun mála í Georgíu í kjölfar lagasetningar um meint gagnsæi erlendra áhrifa í landinu. Í hinu erindinu gagnrýndi hún harðlega framferði Rússlands sem fjarlægði baujur úr ánni Narva sem Eistland kom þar fyrir til að afmarka landamæri Eistlands til norðausturs sem liggja að Rússlandi. 

Sendiherra Íslands í Þýskalandi María Erla Marelsdóttir mætti á sýningu Lovísu Óskar Gunnarsdóttur When the bleeding stops sem var hluti dagskrár á Potsdam Dance Days síðastliðinn þriðjudag. 

Berlínska útgáfan af "hjólað í vinnuna" hófst í gær og starfsfólk sendiráðs okkar á svæðinu ætlar aldeilis ekki að láta sitt eftir liggja.

Kosningar utan kjörfundar stóðu sem hæst hjá sendiskrifstofum okkar um allan heim í vikunni og lýkur í dag. Íslendingar stóðu nú sem endra nær saman í því að koma atkvæðunum heim og til skila í kjörkassana. 

Sýningin Sunup eftir Þórdísi Erlu Zoëga heldur áfram að slá í gegn í sendiráðsbústaðnum í Helsinki. Í vikunni fékk enn einn hópurinn leiðsögn um sýninguna, að þessu sinni frá listasafninu Ateneum sem starfsrækt er í borginni.

Nú er sumarið í fullum gangi í Finnlandi. Sendiherra Íslands í Finnlandi Harald Aspelund og eiginkona hans Dr. Ásthildur Jónsdóttir dustuðu rykið af hjólunum og héldu áfram því skemmtilega verkefni að kynnast Finnlandi og kynna í leiðinni Ísland á hjólreiðum um landið. Ferðasöguna má lesa á Facebook síðu þeirra sendiherrarnir sjálfbæru.

Hildigunnur Engilbertsdóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda var boðið í heimsókn í verksmiðju sem framleiðir umhverfisvænar tíðavörur ásamt öðrum norrænum sendiherrum á svæðinu. 

Þá tók hún þátt í hátíðarhöldum í tengslum við alþjóðlegan baráttudag gegn fæðingarfistli en Íslendingar hafa látið sig málið varða í þróunarsamvinnu um árabil.

Sýningu Hallgríms Helgasonar Gruppeportræt af selvet sem hékk uppi á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn lauk í gær. Sendiráðsstarfsfólkið okkar þar í borg mælir með viðtali Christop Holst Simetzberger við listamanninn sem tekið var í kjölfar opnunar sýningarinnar.

Hjá sendiráði Íslands í Malaví rifjaði fólk upp eftirminnilegar stundir frá heimsókn forsætisráðherra til Malaví á dögunum þar sem haldið var upp á 35 ára afmæli þróunarsamvinnu Íslands og Malaví.

Sigurður Ingi Jóhannesson fjármálaráðherra var staddur í London í vikunni þar sem hann leiddi opnunarathöfn í Kauphöllinni í London. Sturla Sigurjónsson sendiherra Íslands í Bretlandi var viðstaddur opnunina.

Aðalræðisskrifstofan í Nuuk breyttist í sýningarsal fyrr í vikunni þegar þær Antoní Berg og Íris María Leifsdóttir ásamt Vikram Pradhan, Alberte Parmuuna og 12 grænlenskum leirlistakonum opnuðu sýningu á verkum unnum úr grænlenskum og íslenskum jökulleir. 

Áhugi á viðskiptum við Ísland hefur aukist sýnilega eftir gerð hins nýja fríverlsunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Indlands. Til marks um það var Guðni Bragason sendiherra viðstaddur opnun nýrrar deildar Íslensk-indverska viðskiptaráðsins (IIBA) í borginni Chandigarh á Norð-vestur Indlandi og flutti þar erindi um viðskipti ríkjanna. 

Sendiráðsstarfsfólk okkar í Ottawa auglýsir viðburð Icelandair sem haldinn er í tilefni af því að hið árstíðabundna beina flug til milli Íslands og Nova Scotia hefst á ný í júní. 

Í Ottawa var jafnframt þakkað fyrir góða þátttöku á ráðstefnu sem haldin var í annað sinn um samstarf Kanada og Íslands á hinum ýmsu sviðum öryggis- og varnarmála.

Högni Kristjánsson sendiherra Íslands í Noregi tók á móti sendiherrum erlendra ríkja gagnvart Íslandi með aðsetur í Osló og kynnti fyrir þeim komandi forsetakosningar á Íslandi.

Í Stokkhólmi var boðið upp á þjóðarrétt Íslendinga; steikta ýsu. 

Íslenska kvikmyndin Snerting var nýlega frumsýnd á Íslandi. Í sendiráði Íslands í Tókýó bíður fólk spennt eftir frumsýningunni í Japan.

Í Tókýó fer fram samtal um norrænar lausnir í nýsköpun og sjálfbærni þann 11. júní næstkomandi.

Í sendiráði Íslands í Tókýó fór fram listviðburður eftir Árna Kristjánsson sem var nokkurskonar ferðalag um Ísland í japanskri lest. Sendiherra Íslands í Japan Stefán Haukur Jóhannesson tók vel á móti Árna.

Í sendiráði Íslands í Varsjá er auglýst eftir ritgerðum um arfleifð víkinga og hvernig skilgreiningar þeirra tíma á "við" og "hinir" fléttast inn í söguna.

Verkfæri fyrir borgir, sem sendiráðið Íslands í Varsjá bjó til í samvinnu við önnur norræn sendiráð á svæðinu voru frumsýnd í vikunni.

Opnun sýningarinnar fortíðarþrá eftir myndlistarmanninn Hjörleif Halldórsson fór fram þann 18. maí og stendur til 6. júní næstkomandi. Sendiráðsstarfsfólk okkar í Varsjá býður fólk hjartanlega velkomið á sýninguna. 

Aðalræðismaður Íslands í Þórshöfn í Færeyjum minnir á Safnanótt sem fer fram í bænum þann 7. júní næstkomandi.

Hundraðasta fjallkonan, hvorki meira né minna, var valin við hátíðlega athöfn á Íslendingadeginum í Gimli á dögunum. 

Þá minnti starfsfólk sendiráðs Íslands í Winnipeg á blómlega blaðaútgáfu á svæðinu fyrir um hundrað árum síðan. Fyrir áhugasama er hægt að nálgast blöðin Heimskringlu, Lögberg og Voröld á timarit.is 

Það vantar ekki þjóðræknina í Winnipeg en þar á bæ er fólk byrjað að gíra sig upp fyrir hátíðarhöldin á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní næstkomandi. 

Á baksíðu Morgunblaðsins í gær mátti lesa viðtal við Katrínu Níelsdóttur, safnvörð íslenska bókasafnsins í Manitobaháskóla í Winnipeg.

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni í New York en í borginni sem aldrei sefur er starfræktur alþjóðaskóli undir merkjum Sameinuðu þjóðanna og á ári hverju fundar stjórn skólans með aðalframkvæmdastjóra og skólastjóra um helstu þróun og horfur. Slíkur fundur fór fram í þarsíðustu viku. Ísland á sæti í stjórn skólans sem skartar nemendum frá 99 ríkjum og talaðar eru 62 þjóðtungur innan veggja hans, þar á meðal íslenska – og raunar er hægt að nema okkar ástkæra og ylhýra á lokaári. Útskrift nemenda fer svo fram við hátíðlega athöfn í sal allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. 

Fleira var það ekki að sinni. 

Við óskum ykkur góðrar helgar. 

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum