Leiðtogafundur Norðurlandanna með Úkraínuforseta
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tekur þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna með Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, í Stokkhólmi í dag.
Gestgjafi fundarins er Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, en aðrir þátttakendur eru Alexander Stubb, forseti Finnlands, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Á fundinum verður m.a. rætt um stuðning Norðurlandanna við Úkraínu og stöðuna á friðaráætlun Úkraínu. Um er að ræða þriðja leiðtogafund Norðurlandanna með forseta Úkraínu en fyrri fundir voru haldnir í Helsinki í maí á síðasta ári og í Osló í desember sl. Að loknum leiðtogafundinum mun Bjarni eiga tvíhliðafund með Zelensky.