Hoppa yfir valmynd
3. júní 2024 Utanríkisráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Hlýnun sjávar áhyggjuefni samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðahaffræðinefndarinnar

Hrönn Egilsdóttir, fulltrúi Íslands í framkvæmdastjórn IOC og sviðsstjóri umhverfissviðs hjá Hafrannsóknarstofnun, Vidar Helgesen, framkvæmdastjóri IOC, Stefán Jón Hafstein, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Peter Thomson, sérstakur erindreki hafsins hjá Sameinuðu þjóðunum, og Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins.  - myndEgill Aðalsteinsson

Hitastig sjávar hefur aldrei mælst hærra á heimsvísu en á síðasta ári og hraði hækkunar sjávarborðs hefur tvöfaldast síðustu tvo áratugi. Þetta er á meðal helstu niðurstaðna í nýrri skýrslu (State of the Ocean Report 2024) á vegum Alþjóðahaffræðinefndar UNESCO (IOC) sem birt var í dag.

Í tilefni af útgáfu skýrslunnar, sem gefin er út með stuðningi íslenskra stjórnvalda, efndu utanríkisráðuneytið, Hafrannsóknastofnun og IOC til opins fundar um efni hennar í dag. 

„Hafið leggur grunn að tilveru okkar og fullveldi sem og hagsældar okkar og menningu sem þjóðar og á djúpar rætur í sjálfsmynd okkar Íslendinga,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Þess vegna eru niðurstöður skýrslunnar verulegt áhyggjuefni. Allt lífríki jarðar á rætur sínar að rekja til hafsins og því mikilvægt að alþjóðasamfélagið beini athygli sinni í ríkari mæli að heilbrigði sjávar í baráttunni gegn loftslagsbreytinum.“ 

Vidar Helgesen framkvæmdastjóri IOC, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra og Peter Thomson, sérstakur erindreki hafsins hjá Sameinuðu þjóðunum.

Vidar Helgesen framkvæmdastjóri IOC, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra og Peter Thomson, sérstakur erindreki hafsins hjá Sameinuðu þjóðunum.

„Í dag er þörf á hnattrænum lausnum fyrir þær áskoranir sem nú blasa við svo sem súrnun sjávar og plastmengun. Alþjóðlegt samstarf er því eina leiðin fram á við“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. „Ísland hefur skuldbundið sig til að tryggja sjálfbæra nýtingu hafsins og vernda líffræðilegan fjölbreytileika þess fyrir komandi kynslóðir. Í því samhengi er skýrslan mikilvæg. Hún byggir á bestu fáanlegu gögnum, er greind með ströngum vísindalegum aðferðum og sett fram án hlutdrægni,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. 

Peter Thomson, sérstakur erindreki hafsins hjá Sameinuðu þjóðunum, ávarpaði einnig fundinn og þá fór Vidar Helgesen, framkvæmdastjóri IOC, yfir niðurstöður skýrslunnar. Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, annaðist fundarstjórn.

500 dauð svæði meðfram ströndum jarðar

Yfir 100 vísindamenn frá 28 ríkjum unnu að gerð skýrslunnar, sem fjallar um nýlegar hafrannsóknir, núverandi ástand hafsins og framtíðarspá, með áherslu á mengun, súrnun sjávar, breytingar á vistkerfum sjávar og eftirlits- og stjórnunarhætti þegar kemur að málefnum hafsins. Tilgangur með gerð hennar er að fræða stefnumótandandi aðila um ástand hafsins og efla hafrannsóknir og ákvarðanatöku í málefnum hafsins í þeirri viðleitni að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ekki síst markmiði 14 um líf í vatni. Sömuleiðis að vinna að vernd líffræðilegrar fjölbreytni og draga úr hættu á hamförum.

Í skýrslunni kemur fram að frá 1960 hafa höf jarðar tapað 2% af súrefni sínu og í dag eru 500 svokölluð dauð svæði meðfram ströndum jarðar þar sem sjávarlíf á erfitt uppdráttar vegna súrefnisskorts, mengunar, afrennslis frá landbúnaði og hækkandi hitastigs. Á bilinu 20-30% af koldíoxíði sem mannfólk losar út í andrúmsloftið er tekið upp af hafinu og af þeim sökum hafa úthöf súrnað um 30% frá því fyrir iðnbyltingu. Talsverðar breytingar á sýrustigi sjávar mælast á strandsvæðum sem er áhyggjuefni. Vakin er sérstök athygli á því að vistkerfi sjávar eru undir fjölþættu álagi sem stafar af útblæstri koldíoxíðs og ýmsu öðru orsökum að auki. Þetta er alvarleg ógn við líffræðilega fjölbreytni og virkni vistkerfa sjávar sem mikilvægt er að bregðast við. Þá stafar plastmengun í Atlantshafi og Indlandshafi aðallega af veiðarfærum sem hent hefur verið fyrir borð eða tapast í sjóinn. Annars staðar í heiminum, þar með talið á djúpsævi, er mest af einnota plasti. 

Ísland hefur verið aðili að IOC frá árinu 1962 og situr í framkvæmdastjórn fyrir tímabilið 2023-2025.

Hér má lesa skýrsluna í heild. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum