Hoppa yfir valmynd
7. júní 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Listahátíð Reykjavíkur: Ekki missa af listinni!

Menningar- og viðskiptaráðherra ásam Önnu Þorvaldsdóttur tónskáldi.  - mynd

„Ég hvet sem flesta til að kynna sér dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur. Það er eitthvað óútskýranlegt sem gerist þegar borgin fyllist af framúrskarandi viðburðum og verkum. Ég hef sjálf farið á þó nokkrar sýningar og verð að segja að ég er uppfull af ævintýralegum krafti eftir að hafa upplifað, þó ekki sé nema brot af því sem í boði er. Það er svo gott að láta skapandi hugsun ögra skilningarvitunum og finna að það er ævintýri innra með okkur öllum sem skapandi listir hreyfa svo fallega við,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Listahátíðin var sett við hátíðlega athöfn á laugardaginn fyrir viku og stendur til sunnudagsins 16. júní. Dagskráin teygir sig víða um borg og bý svo sem vestur á Ísafjörð og norður á Akureyri.

Dagskrána má sjá hér! 

Límband og ilmþoka

Starfsfólk menningar- og viðskiptaráðuneytisins lét ekki sitt eftir liggja og heimsótti í dag Listasafn Reykjavíkur en sýningin Flóð eftir Jónsa (Jón Þór Birgisson, oft kenndur við Sigurós) var formlega opnuð í upphafi Listahátíðar. Þess má geta að listasafnið býður upp á örleiðsögn alla daga kl. 14. Sýningarstjóri Flóðs segir viðtökur sýningarinnar hafa verið frábærar og það sé einstakt að sjá gesti upplifa allan tilfinningaskalann á sýningunni sem nær yfir fjögur rými allt frá innganginum inn á safnið og teygir sig svo upp um tvær hæðir þar sem gestir ganga inn í alltumlykjandi hljóð-, ljós- og lyktarinnsetningar. Flóð er fyrsta einkasýning Jónsa í Evrópu.

Séu yngri listaunnendur með í för er vert að benda á að á vefsíðu Listahátíðarinnar er hægt að sía leitarniðurstöður eftir áhugasviði og til dæmis skoða sérstaklega fjölskylduvæna viðburði og má sem dæmi nefna sviðsverkið Scoooootch! sem sýnt er í Borgarleikhúsinu. Í þessari bráðfjörugu og kostulegu sýningu sjá gestir vaska kvennarokksveit skapa heilan heim úr harla óvenjulegum efnivið - límbandi! Sýningin hvetur börn jafnt sem fullorðna til að koma auga á og gleðjast yfir hinu óvenjulega í því allra hversdagslegasta.

Sirkusskotinn heimsendir

Listahátíð lýkur sunnudaginn 16. júní en þá helgi (13. – 16. júní) er meðal annars sýningin Las Vegas sýnd í portinu í Hafnarhúsinu en sýningin er sviðsverk myndlistarkonunnar og leikmyndahöfundarins Ilmar Stefánsdóttur. Las Vega fjallar um fjölskyldu sem flytur til Las Vegas í kjölfar þess að barnið á heimilinu sá á TikTok að vísindamenn telji að heimurinn muni farast árið 2036. Í Las Vegas ætlar fjölskyldan að láta drauma barnsins um að læra látbragðsleik rætast áður en það er orðið um seinan en dragast smátt og smátt inn í heim skemmtanaiðnaðarins þegar konan fer að æfa loftfimleika og maðurinn sogast inn í sönglistina. Í þessu marglaga sviðsverki tvinnast myndlist, leiklist, tónlist og sirkuslistir saman á magnaðan hátt.

Gleðilega listahátíð!

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum