Tækniframfarir í meðferð dómsmála
Nýlegar lagabreytingar í réttarvörslukerfinu skapa forsendur til þess að nýta rafræn skjöl, stafræna miðlun gagna og fjarfundi í meira mæli við meðferð dómsmála. Alþingi samþykkti hinn 17. maí 2024 frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um meðferð sakamála, lögum um meðferð einkamála og lögum um gjaldþrotaskipti og fleira í þessu augnamiði og taka lögin gildi þann 1. júlí 2024.
Dómstólasýslan vinnur að gerð reglna í framhaldi af þessum lagabreytingum en auk þess er á vegum dómsmálaráðuneytisins unnið að tæknilausnum svo unnt verði að nýta þær heimildir sem lögin kveða á um, í sérstöku verkefni sem kallast réttarvörslugáttin.
Réttarvörslugáttin tengir saman allar stofnanir réttarvörslukerfisins og tryggir rafrænt/stafrænt flæði gagna og upplýsinga á milli þeirra. Hún verður einnig samskiptaleið við ytri aðila eins og lögmenn. Dómstólasýslan mun stýra innleiðingu rafrænna/stafrænna samskipta ytri aðila við dómstóla eftir því sem verkefnið vinnst áfram og stýra því hvenær tiltekin mál geta farið í rafrænan/stafrænan farveg og samhliða því gefa út viðeigandi reglur um afhendingarmáta rafrænna gagna.
Rafrænt og stafrænt form, miðlun og rafræn staðfesting
Dómsmálaráðuneytið vekur sérstaka athygli á nýjum ákvæðum í lögum um meðferð einkamála þar sem fjallað er m.a. um rafræna og stafræna miðlun gagna og rafræna staðfestingu, en þar segir:
- Tilkynningu eða gagni er heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Dómari getur ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram í dómi telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu málsins.
- Þegar lög eða venja áskilja áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun telst slíkum áskilnaði fullnægt með rafrænni staðfestingu.
- Gagn sem miðlað er á stafrænu eða rafrænu formi telst komið til viðtakanda þegar það er aðgengilegt þannig að unnt sé að kynna sér efni þess. Gagn þarf ekki jafnframt að afhenda á pappírsformi.
Þá voru gerðar þær breytingar að dómstólasýslunni er falið að setja reglur um rafræna staðfestingu, sem og afhendingarmáta, form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd ákæru og greinargerðar ákærða og að setja reglur um rafræna staðfestingu, sem og afhendingarmáta, form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd stefnu og greinargerðar stefnda.
Fjarfundarbúnaður heimilaður varanlega
Þá er einnig vakin athygli á því að heimildir til notkunar fjarfundarbúnaðar hafa nú verið gerðar varanlegar í lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála. Samkvæmt breytingarlögunum getur dómari að tilteknum skilyrðum uppfylltum, heimilað þátttöku í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað. Þá munu lögregla og dómstólar geta ákveðið að skýrslugjafir fari fram í gegnum fjarfundarbúnað með hljóði og mynd. Dómstólasýslunni er falið að setja leiðbeinandi reglur um þessi atriði fyrir dómi, þar á meðal um skýrslugjöf.