Hoppa yfir valmynd
12. júní 2024 Dómsmálaráðuneytið

Í tilefni af erindi fjármálaráðuneytis til lögreglu

Í tilefni af erindi sem fjármála- og efnahagsráðherra sendi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þann 11. júní 2024, vill dómsmálaráðherra koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.
Íslenskt sakamálaréttarfar byggir á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa.

Þróun síðustu áratuga hefur verið sú að efla enn frekar sjálfstæði ákæruvalds og rannsóknarvalds. Ríkissaksóknari, sem nýtur sjálfstæðis í embætti sínu, er jafnframt æðsti yfirmaður sakamálarannsókna og tekur ekki við fyrirmælum frá neinum öðrum stjórnvöldum. Er þetta í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins um að sakamálarannsóknir lúti einungis lögum en ekki pólitískum afskiptum. Þróunin hérlendis hefur verið sú að færa þetta vald frá dómsmálaráðuneytinu og til ríkissaksóknara. Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi.

Pólitísk afskipti af rannsóknum sakamála eru til þess fallin að grafa undan réttarríkinu. Þau geta leitt til þess að sá sem sætir rannsókn telji sig ekki hljóta réttláta málsmeðferð þar sem hlutleysis hafi ekki verið gætt við ákvörðun um saksókn. Af því leiðir að ráðuneyti stjórnarráðsins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar eiga ekki að hafa afskipti af því hvort eða hvernig mál eru tekin til rannsóknar sem sakamál.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum