Hoppa yfir valmynd
13. júní 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Netsala áfengis ógnar grundvallarmarkmiðum lýðheilsu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra bendir á í bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra að með netsölu áfengis sé grafið undan gildandi sölufyrirkomulagi á áfengi og grundvallarmarkmiðum stefnu stjórnvalda í lýðheilsumálum ógnað. Vísar hann m.a. til markmiðsákvæða áfengislaga og laga um verslun með áfengi og tóbak sem kveða á um að umgjörð smásölu áfengis skuli byggjast á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. 

Rík áhersla á lýðheilsu og forvarnir í lögum og stefnum stjórnvalda

Heilbrigðisráðherra segir tilgang einkasölufyrirkomulags áfengis á smásölustigi byggja á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felist fyrst og fremst í því að takmarka aðgengi að áfengi og vinna þannig gegn misnotkun og skaðlegum áhrifum þess. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar komi fram að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, fjárhagslegir og félagslegir, að aukin áhersla sé lögð á lýðheilsu og forvarnir.

Þá vísar ráðherra í ályktun Alþingis um lýðheilsustefnu sem miði að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma. Stóraukið aðgengi að áfengi með opnun netverslana vinni beinlínis gegn þeirri framtíðarsýn Alþingis. Þá hafi rannsóknir sýnt að aukið aðgengi að áfengi hafi slæm áhrif á heilsufar fólks og hafi neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér. Rekja megi eitt af hverjum tíu dauðsföllum í Evrópu til áfengisneyslu, neysla þess hafi orsakatengsl við yfir 200 sjúkdóma og heilsukvilla og sé auk þess stór áhættuþáttur slysa. 

Netverslun með áfengi mögulega í andstöðu við lög

Einstaklingum hér á landi er heimilt að flytja áfengi til landsins til eigin nota, að því tilskildu að þeir standi sjálfir fyrir innflutningnum, greiði tolla og önnur opinber gjöld og að salan fari fram í öðru landi. Deilt hefur verið um hvort fyrirkomulag netverslana á íslenskum markaði brjóti gegn ákvæðum laga þar sem þær selji áfengi af innlendum lager sem þegar hafi verið flutt til landsins og tollafgreitt. Þá hafi borið á auglýsingum netverslana um heimsendingu áfengis á höfuðborgarsvæðisins innan við 30 mínútum eftir að kaupin fara fram. Ekki hefur verið skorið úr um það fyrir dómstólum hvort hér sé um að ræða einkainnflutning kaupanda á vörunni, eða hvort innflutningurinn stríði gegn lögum, líkt og nánar er rakið í bréfi heilbrigðisráðherra.

Fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með framkvæmd laganna hefur þegar brugðist við með erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem bent er á álitaefni sem tengjast starfsemi netverslana með áfengi og kunna að fela í sér brot á lögunum. Efnt var til sérstakrar umræðu á Alþingi í vikunni um forvarnir og lýðheilsu í tengslum við aukið aðgengi að áfengi og málið var sömuleiðis tekið fyrir á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum