Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Forsætisráðuneytið

Hátíðardagskrá á 80 ára afmæli lýðveldisins

Þann 17. júní verða liðin 80 ár frá því að íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum. Þessara tímamóta hefur verið minnst með ýmsum hætti á árinu en hátíðarhöldin ná hámarki 17. júní.

Dagskrá í Reykjavík

Á Austurvelli verður hefðbundin dagskrá með guðsþjónustu í Dómkirkjunni, hátíðarræðu forsætisráðherra og ávarpi fjallkonunnar. Nýstúdentar munu leggja blómsveig við styttu Jóns Sigurðssonar. Þá verður farin skrúðganga leidd af lúðrasveit frá Hallgrímskirkju niður í Hljómskálagarð þar sem hátíðardagskrá verður allan daginn. Þar munu m.a. fara fram stórtónleikar. Nánari upplýsingar um dagskrána í Reykjavík

Lýðveldishátíð á Þingvöllum

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum efnir til hátíðar í tilefni lýðveldisafmælisins helgina 15.-17. júní fyrir alla fjölskylduna. Hátíðarsvæðið verður í og við Almannagjá, Þingvallakirkju og að gamla Valhallarsvæðinu þar sem verða alla helgina; víkingatjöld, fornleifaskóli barnanna, söngvasyrpa Leikhópsins Lottu, teymt undir börn og matarvagnar. Laugardaginn 15. júní verður Íslandskort barnanna – börnin setja sitt mark á Ísland – afhjúpað og vinnustofa því tengdu í gestastofu þjóðgarðsins á Þingvöllum. Tónleikar verða í Þingvallakirkju milli kl. 15-17 og ljósmyndasýningin 80 ára lýðveldi verður formlega opnuð í gestastofu á Haki.

Sunnudaginn 16. júní mun fjöldi kóra skunda á Þingvöll og syngja hver á eftir öðrum í Almannagjá frá kl. 13-16. Þá verður efnt til fjölskyldugönguferðar með Ferðafélagi barnanna  um Þingvelli. Tónleikar verða í Þingvallakirkju á milli kl. 15-17. Lýðveldisbollakökur verða í boði á Valhallarreitnum. Kvöldið endar með tónleikum með landsþekktu tónlistarfólki og hefjast þeir klukkan 20:00 við gamla Valhallarreitinn.

Mánudaginn 17. júní verður hátíðarguðsþjónusta klukkan 15:00 í Þingvallakirkju. Af þessu tilefni verður Þingvallabærinn, sem byggður var í tengslum við Alþingishátíðina, formlega tekinn í notkun eftir viðamiklar endurbætur á vegum forsætisráðuneytisins.

Lýðveldishátíð á Hrafnseyri

Á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, verður haldin lýðveldishátíð dagana 16.-17. júní með fjölbreyttri dagskrá fyrir fjölskylduna. Í tilefni 80 ára lýðveldis og 1150 ára Íslandsbyggðar verður opnuð sýning á landnámsminjum sem fundist hafa á Hrafnseyri og víðar í Arnarfirði.

Fólk af erlendum uppruna er boðið velkomið í tengslum við verkefnið Gefum íslensku séns. Á þjóðhátíðardaginn mun menningar- og viðskiptaherra flytja hátíðarávarp. Fólki sem fætt er á lýðveldisárinu 1944 er boðið til kaffisamsætis í tilefni dagsins.

Hrafnseyri

Aðrir viðburðir

Hátíðardagskráin er aðgengileg er á vefnum www.lydveldi.is. Í boði eru viðburðir um allt land sem ætlað er að höfða til allra. Þar má nefna hátíðarhöld á 17. júní þar sem boðið verður upp á lýðveldisbollakökur í tilefni dagsins sem bakarar víða um land hafa bakað og boðið verður upp á þar sem hátíðarhöld verða. Þá verður efnt til menningarviðburða. Má þar nefna sýningu á Lögréttutjöldunum í Þjóðminjasafni Íslands, sýningu Þjóðminjasafnsins og Kvikmyndasafns Íslands um efni frá stofnun lýðveldisins í júní 1944. Einnig verður sýning í Listasafni Íslands, Safnahúsinu, um fána í íslenskri myndlist, sýningin Framtíðarfortíð í Listasafni Íslands og Listasafni Ísafjarðar þar sem sýnd verða verk eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar. Þá mun Sjónvarpið sýna nýja heimildarmynd um fjallkonuna að kvöldi 17. júní.

Í boði verða tónlistarviðburðir, m.a. í tengslum við verkefnið Sungið með landinu þar sem sjónum er beint að merku starfi kóra um allt land. Kórsöngur mun óma um land allt á 17. júní þar sem m.a. verður sungið þjóðhátíðarljóð Þórarins Eldjárns við nýtt verðlaunalag Atla Ingólfssonar. Þá verða í boði gönguferðir undir yfirskriftinni Gengið um þjóðlendur þar sem ferðafélög hafa skipulagt ferðir um þjóðlendur og víðerni Íslands. Vonast er til að dagskráin höfði til sem flestra og stuðli að samveru og gleði á tímamótunum.

Bókinni Fjallkonan. Þú er móðir vor kær sem er gjöf til landsmanna í tilefni lýðveldisafmælisins verður dreift. Forsætisráðuneytið gefur bókina út í samvinnu við Forlagið og verður henni dreift í sundlaugar og bókasöfn og í sendiráð Íslands erlendis. Fjallkonan er þjóðartákn og í bókinni er kafað ofan í sögu fjallkonunnar, ávörpin sem flutt hafa verið af íslenskri fjallkonu allt frá árinu 1947. Í bókinni eru þýðingar m.a. á ensku og pólsku. Í bókinni er að finna úrval þjóðhátíðarljóða og greina um fjallkonuna. Forsætisráðherra ritar formála en greinarhöfundar eru Goddur, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir og Áslaug Sverrisdóttir.

Einnig verður kl. 15 á 17. júní opnuð sýningin …Að allir séu óhultir en þar sýna börn afrakstur sinn af myndlistarnámskeiði sem Listasafn Íslands hélt í samvinnu við umboðsmann barna með börnum úr Grindavík á aldrinum 10-12 ára. Á sýningunni verður einnig sýndur hluti gagna frá fundi sem umboðsmaður barna hélt með grindvískum börnum í byrjun mars þar sem þau lýstu upplifun sinni af atburðum síðustu mánaða. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra verður viðstaddur opnunina og fær afhenta skýrslu með helstu niðurstöðum fundarins. Sýningin sem verður í Safnahúsinu mun standa yfir til 30. júní.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum