Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Dómsmálaráðuneytið

Útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra samþykkt

Alþingi samþykkti frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum föstudaginn 14. júní.
Með frumvarpinu er verið að bregðast við hraðri þróun í málaflokknum og fordæmalausri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd. Lagabreytingarnar miða að því að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, þá einkum á Norðurlöndunum, og að mæta þeim annmörkum sem komið hafa í ljós við beitingu gildandi laga og afnema séríslenskar málsmeðferðarreglur. Með lagabreytingunum er einnig stefnt að því að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns.

Dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir:
„Málefni útlendinga eru viðkvæmur málaflokkur og ber að nálgast hann af virðingu. Ísland er meðal helstu velferðarríkja heims og það er ekki hægt að tryggja og viðhalda þeirri velferð nema hafa stjórn á þeim fjölda sem til landsins kemur. Ég fagna þessum breytingum á útlendingalöggjöfinni okkar, en um er að ræða veigamestu breytingar á málaflokknum í áraraðir, en einnig að sátt hafi náðst í ríkisstjórn um sameiginlega sýn í málaflokknum.“

Markmið laga um útlendinga er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Samhliða verulegri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd sem íslenskum stjórnvöldum hafa borist undanfarin ár, auk sífelldra breytinga á samsetningu á hópi umsækjenda, er mikilvægt að stjórnvöld geti brugðist við, eftir atvikum með laga- og reglugerðarbreytingum, og aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma. Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt þannig upp að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Á sama tíma er nauðsynlegt að sporna gegn misnotkun á kerfinu. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa á stefnuskrá sinni að fækka umsóknum um alþjóðlega vernd og stytta málsmeðferðartíma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum