Viðbrögð við fjölþáttaógnum efst á baugi ráðherrafundar Eystrasaltsráðsins
Viðbrögð við fjölþáttaógnum, viðnámsþol samfélaga og málefni Úkraínu voru ofarlega á baugi á fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins sem fram fór í Porvoo í Finnlandi í dag. Í sameiginlegri yfirlýsingu fordæma utanríkisráðherrarnir harðlega innrásarstríð Rússlands og lýsa yfir algjörri samstöðu með Úkraínu.
Rússlandi var meinuð þátttaka í Eystrasaltsráðinu í byrjun mars 2022. Í kjölfarið, eða 17. maí 2022, tilkynnti Rússland svo formlega um úrsögn sína úr ráðinu.
Á fundinum lagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra áherslu á þýðingamikið hlutverk Eystrasaltsráðsins við að efla samstarf og samstöðu á svæðinu allt frá stofnun ráðsins árið 1992. Innrás Rússlands í Úkraínu hafi markað vatnaskil í sögu þess og nú þurfi stuðningur við Úkraínu að vera í forgangi. Jafnframt ítrekaði hún nauðsyn þess að efla viðnámsþol og neyðarviðbrögð samfélaga á svæðinu, ekki síst í ljósi aukinnar hættu sem stafar af fjölþáttaógnum. Að lokum lýsti utanríkisráðherra yfir stuðningi við áform um að hefja endurskoðun á starfsemi ráðsins í ljósi nýs veruleika í álfunni.
„Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu olli straumhvörfum í öryggisumhverfi Evrópu og sú staðreynd að í álfunni ríkir stríð hefur áhrif á allt okkar samstarf. Það er mikilvægt að Eystrasaltsráðið aðlagist nýjum veruleika og að aðildarríkin noti það til að efla enn frekar samstöðu og samstarf lýðræðisríkja á svæðinu,“ segir Þórdís Kolbrún.
Yfirlýsingu fundarins má finna hér.
Þórdís Kolbrún tók jafnframt þátt í sérstökum umræðufundi, „Kultaranta Talks,“ í forsetahöllinni í Helsinki í boði Alexander Stubb forseta Finnlands, ásamt utanríkisráðherrum Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Póllands og Þýskalands auk annarra boðsgesta. Þar var fjallað á breiðum grunni um hlutverk Evrópu í alþjóðasamfélaginu sem og breyttar áskoranir á sviði öryggismála sem innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hefur skapað. Þá átti Þórdís Kolbrún tvíhliða fund með utanríkisráðherra Póllands þar sem náið samstarf þjóðanna, meðal annars á sviði viðskipta og öryggismála, var til umræðu.
Eystrasaltsráðið var stofnað 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltssríkin, Pólland, Þýskaland og Evrópusambandið. Ráðið hefur aðsetur í Stokkhólmi og á vettvangi þess fer fram margþætt samstarf aðildarríkjanna um málefni á borð við barnavernd, málefni ungmenna, aðgerðir gegn mansali og almannavarnir.