Hoppa yfir valmynd
17. júní 2024 Forsætisráðuneytið

Hátíðarávarp forsætisráðherra á 80 ára afmæli lýðveldisins

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti þjóðhátíðarhátíðarávarp á Austurvelli í dag á 80 ára afmæli lýðveldisins.

Forsætisráðherra sagði að það hefði þurft kjark og óbilandi trú á framtíð íslensku þjóðarinnar til að berjast fyrir fullveldinu og stofnun lýðveldis í framhaldinu.

„Lýðveldissagan hefur einkennst af stórtækum framförum á öllum sviðum. Drifkraftar framfaranna hafa verið sjálfstæði okkar og fullveldi, lýðræðið, frelsi til orðs og æðis, menntun, sjálfbær nýting auðlinda okkar, alþjóðasamvinna og síðast en ekki síst friður í okkar heimshluta,“ sagði forsætisráðherra.

Íslenska þjóðin hafi verið í stöðugri sókn til bættra lífskjara sem birtist m.a. í betri heilsu, meira jafnrétti, meira frelsi á öllum sviðum, fjölgun landsmanna, fjölbreyttari atvinnustarfsemi, sterkra félags- og efnahagslegra innviða og vaxandi kaupmáttar. Við hugsum því með þakklæti til horfinna kynslóða sem lögðu grunn að samfélagi samtímans.

Forsætisráðherra ræddi einnig um vaxandi áhyggjur af lýðræðinu sem birtast í okkar heimshluta. Teikn séu á lofti um aukna skautun, netárásir og undirróðursöfl sem skeyti engu um framtíð landsmanna.

„Tökum höndum saman um að viðhalda og verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Gætum þess einnig að láta ekki ólík viðhorf og nýjar áskoranir draga úr okkur kjarkinn til frjálsra skoðanaskipta og til að taka ákvarðanir fyrir framtíðina,“ sagði forsætisráðherra.

Þá minnti forsætisráðherra á að íslenska þjóðin sýni best úr hverju hún er gerð við erfiðar aðstæður. Á það hafi reynt þegar heimabæ á fjórða þúsund landsmanna er ógnað af jarðeldum. Þá standi þjóðin saman, öll sem eitt, með bæjarbúum.

Forsætisráðherra ræddi loks um þau miklu tækifæri sem hafi opnast og verið nýtt á lýðveldistímanum til að byggja upp gjöfult og gott samfélag. Þau tækifæri hafi sprottið upp úr frjóum jarðvegi sem spor fólks sem fylgdi hugsjónum sínum og vann að fullveldi Íslands og síðar lýðveldi skilaði.

„Það fyllir okkur stolti að líta um farinn veg, huga að öllu því sem þjóðin hefur áorkað á 80 árum. Við skulum gleðjast og fagna. Á morgun heldur starf okkar allra áfram við að gera enn betur fyrir framtíðarkynslóðir,“ sagði forsætisráðherra.

Hátíðarávarp forsætisráðherra

Myndir frá athöfninni á Austurvelli

  • Hátíðarávarp forsætisráðherra á 80 ára afmæli lýðveldisins - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ebba Katrín Finnsdóttir er fjallkonan í ár. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta