Forsætisráðherra fundaði með forsætisráðherra Litáen á Þingvöllum
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Ingrida Šimonyte, forsætisráðherra Litáen, áttu í gær tvíhliða fund í Þingvallabænum. Šimonyte, sem var í vinnuheimsókn á Íslandi, var einnig viðstödd hátíðarhöldin á Austurvelli þar sem 80 ára afmæli lýðveldisins var fagnað.
Á fundi sínum ræddu forsætisráðherrarnir farsælt samband og samstarf ríkjanna tveggja. Ísland var fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Litáen í febrúar 1991 og tóku löndin upp stjórnmálasamband síðar sama ár. Sem þakklætisvottur er í Litáen haldinn árlega sérstakur dagur sem nefnist „Takk Ísland“.
Ísland og Litáen eiga einnig með sér náið samstarf á vettvangi NB8, sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, og hjá Atlantshafsbandalaginu.
Þá ræddu ráðherrarnir um öryggis- og varnarmál í Evrópu, sérstaklega hvað varðar mikilvægi áframhaldandi stuðnings við Úkraínu og stöðu Litáens sem nágrannaríkis Rússlands.
Forsætisráðherra Litáen fékk einnig leiðsögn um Þingvelli í fylgd Einars Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsvarðar. Fundur ráðherranna í Þingvallabænum var fyrsti viðburðurinn þar eftir viðamiklar endurbætur.