Hoppa yfir valmynd
19. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar samþykkja aukinn stuðning við Úkraínu

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu aukinn varnarviðbúnað, undirbúning leiðtogafundar sem fer fram í næsta mánuði og stuðning bandalagsríkja við varnarbaráttu Úkraínu á ráðherrafundi í Brussel í síðustu viku. Fundurinn var jafnframt fyrsti varnarmálaráðherrafundur Svía eftir inngöngu í bandalagið. 

Ráðherrafundurinn hófst í NATO-Úkraínuráðinu þar sem Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, gerði grein fyrir varnarbaráttu Úkraínu, þörf fyrir auknum hergagnastuðning og annarri varnartengdri aðstoð. Hann ræddi stöðuna á vígvellinum og hvernig bregðast verði við linnulausum árásum Rússlandshers á borgaralega innviði landsins, þar á meðal orkukerfin. Þá gerði Umerov grein fyrir yfirstandandi umbótavinnu stjórnvalda. Ráðið ræddi aukinn stuðning bandalagsins við þjálfunarverkefni og umbætur í öryggis- og varnarmálum fyrir Úkraínu sem miða að því að styrkja getu landsins til skemmri og lengri tíma.

Varnarmálaráðherranir ræddu yfirstandandi vinnu við að efla varnarviðbúnað og fælingarmátt bandalagsins sem miðar vel og tekur til fjölgunar liðsafla, endurbóta á herstjórnarkerfinu og fjárfestinga í tækni og varnargetu. Samhljómur er um mikilvægi þess að tryggja aukin framlög til varnarmála til að efla varnir bandalagsins og mæta nýjum áskorunum í öryggismálum. Ráðherrarnir samþykktu jafnframt áætlun um að bandalagið leiði samræmingu öryggisstuðnings og þjálfunar til handa Úkraínu, sem undirstrikar fyrirsjáanleika og langtíma stuðning við varnarbaráttu landsins. Þá funduðu ráðherrar um kjarnavopnafælingu bandalagsins. 

Hermann Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu tók þátt í fundunum fyrir Íslands hönd.

Áður en varnarmálaráðherrafundurinn hófst fór fram ráðherrafundur ríkjahóps til stuðnings varnarbaráttu Úkraínu (e. Ukraine Defence Contact Group, UDCG) þar sem rætt var um mikilvægi þess að efla stuðning við varnir landsins með skilvirkum hætti. Ríkin hafa stofnað smærri hópa um ákveðin verkefni og tekur Ísland þátt í að leiða hóp um sprengjuleit og eyðingu en er jafnframt þátttakandi í hópi um netöryggismál.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta