Kynjajafnréttisstefna Evrópuráðsins tekur mið af yfirlýsingu leiðtogafundarins í Reykjavík
Ný kynjajafnréttisstefna Evrópuráðsins fyrir árin 2024-2029 hefur tekið gildi en henni var formlega hleypt af stokkunum í lok maí. Stefnan byggir á skuldbindingum aðildarríkja ráðsins, samþykktum tilmælum og leiðbeiningum um kynjajafnrétti.
Í upphafi stefnunnar er vísað til ályktunar leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fram fór í Reykjavík í maí á síðasta ári en þar segir að aðildarríki skuli vinna að: „Jafnrétti kynjanna þar sem full, jöfn og skilvirk þátttaka kvenna í ákvarðanatökuferlum er nauðsynleg fyrir réttarríkið, lýðræði og sjálfbæra þróun. Við leggjum áherslu á brautryðjendahlutverk Evrópuráðsins, meðal annars í gegnum Istanbúlsamninginn, í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.“
Í nýrri áætlun er gerð grein fyrir markmiðum og áherslum Evrópuráðsins í jafnréttismálum fyrir árin 2024-2029, starfsaðferðir og helstu samstarfsaðilar skilgreindir, auk þeirra aðgerða sem þarf til að auka sýnileika árangurs. Auk samþykktra viðmiða sem liggja til grundvallar jafnréttisstefnunni verður áhersla lögð á að ná árangri á eftirfarandi sviðum, sérstaklega:
- Koma í veg fyrir og berjast gegn kynjamisrétti og kynferðislegri mismunun.
- Koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum og heimilisofbeldi.
- Tryggja jafnan aðgang karla og kvenna að úrræðum réttarkerfa og vinna að kynjajafnrétti í réttarvörslukerfum aðildarríkjanna.
- Vinna að jafnri þátttöku kvenna og karla í stjórnmálum, opinberu lífi og í félagslegu og efnahagslegu lífi borgara.
- Tryggja valdeflingu kvenna og kynjajafnrétti í tengslum við alþjóðlegar áskoranir.
- Innleiða samþættingu kynjasjónarmiða og tryggja sjónarmið inngildingar í stefnumótun og aðgerðir.
Nánar er fjallað um kynjajafnréttisstefnu Evrópuráðsins á heimasíðu Jafnréttisstofu