Tillaga að aðgerðaáætlun – skýrsla samráðshóps um krabbamein
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um nýja aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum til ársins 2030. Samráðshópur sem ráðherra skipaði í byrjun þessa árs til að vinna drög að slíkri áætlun skilaði niðurstöðum sínum í dag. Lagt er til að aðgerðaáætlunin endurspegli þau grunngildi sem fram koma í ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu þar sem m.a. er lögð áhersla á rétta þjónustu á réttum stað og forvarnir á öllum æviskeiðum. Enn fremur verði tekið tillit til breytinga og nýjunga á sviði greininga, meðferðar og þjónustu og breyttra viðhorfa til krabbameina frá því að fyrsta krabbameinsáætlunin var gerð.
Fyrsta íslenska krabbameinsáætlunin tók formlega gildi árið 2019 en undirbúningur að gerð hennar hafði þá staðið yfir í nokkur ár. Áætlunin var afar metnaðarfull og birtist í 100 blaðsíðna skýrslu með tillögum að 65 aðgerðum í málaflokknum. Tímabært þótti að móta nýja aðgerðaáætlun og skipaði heilbrigðisráðherra samráðshópinn í því skyni. Við vinnuna hefur hópurinn lagt til grundvallar þær aðgerðir sem eftir stóðu úr fyrri áætlun og þykja raunhæfar og móta jafnframt tillögur að nýjum aðgerðum til næstu ára í samræmi við bestu þekkingu, samfélagslega þróun og nýjungar á sviðinu.
Í samráðshópnum sem skipaður var í janúar sl. sat breiður hópur fagfólks sem starfar á sviði krabbameinsmála, s.s. frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, heilbrigðisstofnunum, heilsugæslunni, Háskóla Íslands, embætti landlæknis, Reykjalundi, Krabbameinsfélagi Íslands, Ljósinu og Krafti, líkt og nánar er tilgreint í meðfylgjandi skýrslu.
Willum Þór segir samráðshópinn hafa skilað ómetanlegu og metnaðarfullu starfi: „Nú skiptir máli að formgera þetta verkefni og ná breiðri samstöðu þings og þjóðar um framkvæmd áætlunarinnar, enda er þetta eitt af mikilvægustu lýðheilsuverkefnum samtímans. Þess vegna hef ég ákveðið að setja áætlunina fram sem þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í krabbameinsáætlun til fimm ára og hyggst gera það næsta haust.“