Hoppa yfir valmynd
21. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 21. juní 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar með yfirliti um helstu störf utanríkisþjónustunnar í liðinni viku.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti árlegan sumarfund utanríkisráðherra Norðurlandanna á fimmtudag þar sem átökin fyrir botni Miðjarðarhafs voru áberandi umræðuefni. Ráðherra ítrekaði mikilvægi þess að Norðurlöndin tali einni röddu á sviðum öryggismála.

 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sótti árlegan sendiherrafund sendiherra aðildaríkja Evrópusambandsins gagnvart Íslandi. Sendiherrar 21 ESB ríkja hittust til að ræða stefnur og samskipti Íslands og ESB og fleira.

Hermann Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, tók þátt í ráðherrafundi varnamálaráðherra Atlantshafsbandalagsins fyrir Íslands hönd í Brussel í síðustu viku. Aukinn varnarviðbúnaður, undirbúningur leiðtogafundar sem fer fram í næsta mánuði og stuðningur bandalagsríkja við varnarbaráttu Úkraínu var til umræðu. 

Það voru alls 71 sendiherra erlends ríkis sem tók þátt í hátíðarhöldum á þjóðhátíðardaginn 17. júní í Reykjavík þetta árið. Utanríkisráðherra tók því á móti fjölda gesta í tilefni 80 ára afmæli lýðveldisins.

 

Þá snúum við okkur að sendiskrifstofum okkar úti í heimi. Mikið var við um að vera á sendiskrifstofum Íslands um víða veröld í tilefni þjóðhátíðardagsins.

 

Íslenskt hugvit var kynnt í sendiráði Íslands í Berlín í vikunni þegar staðgengill sendiherra tók á móti Þýskalandsskrifstofu Tixly, sem kynnti starfsemi sína fyrir menningar- og viðburðarhúsum hjá norrænu sendiráðunum. Skrifstofan sér um markaðssvæðið Þýskaland, Austurríki og Sviss, en auk mögulegra nýkúnna tóku þátt stór menningarhús frá Austurríki og Þýskalandi sem þegar hafa stofnað til viðskipta við Tixly.

  

Sendiherrahjónarnir Kristján Andri Stefánsson og Davíð Samúelsson efndu til móttöku í sendiherrabústaðnum í Brussel 17. júní í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins og 30 ára afmæli EES samningsins. Hægt er að sjá myndir og myndbönd frá vel heppnuðum viðburði.

Finnur Þór Birgisson, sendifulltrúi í sendiráði Íslands í Brussel, flutti ávarp fyrir hönd Íslands í EFTA húsinu í Brussel af því tilefni að Ísland lætur að formennsku í fastanefnd EFTA í byrjun næsta mánaðar. Ungverjaland tekur við formennsku 1. júlí næstkomandi. Finnur minnti á mikilvægi þeirra grunngilda sem EES-samstarfið byggir á.

  

Sendiherra Íslands gagnvart Finnlandi, Harald Aspelund, og Dr. Ásthildur Jónsdóttir opnuðu listasýningu í sendiherrabústaðnum í tilefni þjóðhátíðardagsins.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Kampala fagnaði þjóðhátíðardeginum með fallegri köku.

Á þriðjudag veitti Friðrik Danakonungur Árna Þór Sigurðssyni, sendiherra Íslands í Danmörku, kveðjuáheyrn í Amalienborgarhöll í tilefni af starfslokum Árna, en hann kveður sendiráðið í lok júní.

Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, var meðal gesta á árlegri liðskönnun Karls konungs á lífverði sínum, sem á ensku kallast "Trooping the Colour," um helgina.

Sturla sótti einnig minningarathöfn fyrir íbúa Eystrasaltsríkjanna sem fluttir voru nauðugir til Síberíu á árunum 1940-1949. Sendiráð Eystrasaltsríkjanna í London héldu minningarathöfnina í St. James kirkjunni í Piccadilly.

  

Sendiráðið í London hélt upp á 80 ára afmæli lýðveldisins með glæsibrag en meðal gesta voru fjölmargir sendiherrar gagnvart Íslandi sem hafa búsetu í London.

Í tilefni Jazzfest hátíðarinnar í Osló bauð sendiherra Íslands í Osló til tónleika í embættisbústað Íslands. Þar var íslenskri og norskri tónlist fagnað samhliða 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins.

Í gær var opnuð glæsileg sýning á verkum Erró í Musée d’Angoulême í samstarfi Reykjavíkurborgar og Angoulêmeborgar, að viðstöddum borgarstjóra Reykjavíkur, Einars Þorsteinssonar, Xavier Bonnefont, borgarstjóra Angoulême, Ólöfu K. Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur og Unni Orradóttur Ramette, sendiherra Íslands í París.

  

Sendiráð Íslands í París, sem einnig fer með fyrirsvar á Spáni, tók þátt í annað sinn í samstarfi sendiráða Norðurlandanna í Madríd í tengslum við bóksöluhátíðina Feria del Libro.

Una Jóhannsdóttir sendiráðunautur sendiráðs Íslands í París sótti fund á vegum samstarfsins International Gender Champions þar sem áhersla var á að ræða jafnrétti í íþróttum í aðdraganda Ólympíuleikanna í París í sumar.

Aðalþing Association France-Islande var haldið í sendiráðsbústaðnum í París. Félagsmenn ræddu framtíðarverkefni og styrktu vináttutengsl.

 

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking afhenti Tô Lâm forseta Víetnam trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Víetnam við hátíðlega athöfn.

Sendiherra átti einnig góðan fund með My Ngoc Nguyen ræðismanni Íslands í Hanoi. Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra Íslands gagnvart Svíþjóð, tók þátt sem ræðumaður á ráðstefnu undir fyrirskriftinni "Lítil tungumál stórar hugmyndir" sem haldin var á vegum Háskólans í Uppsölum.

 

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi hélt upp á þjóðhátíðardaginn í Karlstad þar sem sendiherra opnaði ljósmyndasýninguna Black Lava Fairytale. Síðar heimsótti sendiherra kapelluna í Acksjö þar sem íslenska tónlistarkonan Anna Gréta Sigurðardóttir spilaði íslensk lög og hitti sendiherra svo ríkisstjóra Värmland, George Andrén.

 

Sendiherra Japans gagnvart Íslandi, Ryotaro Suzuki, hélt viðburð í Reykjavík í tilefni komandi Expo 2025 sem haldin verður á næsta ári í Osaka. Þar kynntu Ragnar Þorvarðarson, sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Tókýó, og Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, þáttöku Íslands í sameiginlegum sýningarskála Norðurlandanna.

 

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Færeyjum hélt þjóðhátíðardag Íslendinga hátíðlegan á mánudag.

Í Washington bauð Bergdís Ellertsdóttir sendiherra til móttöku í sendiherrabústaðnum á áttatíu ára lýðveldisafmæli Íslands hinn 17. júní og var þar margt um manninn. Bandaríkin voru fyrsta ríkið til að viðurkenna lýðveldið Íslands og lagði Bergdís út frá því í stuttu ávarpi sem hún flutti, sem og þeirri staðreynd að Franklin D. Roosevelt, þá forseti Bandaríkjanna, bauð Sveini Björnssyni, fyrsta forseta Íslands, til heimsóknar til Washington þegar eftir lýðveldisstofnunina og var þar með gefinn tónninn í nánu vinarsambandi Íslands og Bandaríkjanna æ síðan. Geoffrey Pyatt aðstoðarutanríkisráðherra flutti einnig ávarp í móttökunni og lagði áherslu á mikilvægi bandalaga og samstöðu, bæði þá og nú, með vísan til aðstæðna í Evrópu nú um stundir. Gestir í veislunni komu úr stjórnsýslunni en einnig hugveituheiminum í Washington, þá voru meðal gesta tengiliðir á Bandaríkjaþingi, fjölmiðlafólk og fólk úr menningarlífinu, sem og annarra sendiráða í Washington, auk Íslendingafélagsins.

Á þjóðhátíðardaginn hélt íslenska jazztónlistarkonan Sara Magnúsdóttir einnig tónleika í frægum tónlistarklúbbi í Georgetown-hverfi, Blues Alley, og var þar vel mætt en tónleikarnir voru hluti af menningarsamstarfi norrænu sendiráðanna í Washington. Loks er rétt að geta þess að Bergdís Ellertsdóttir sendiherra átti fund með Thom Tillis, öldungadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins, í vikunni og ræddu þau um tvíhliða samband Íslands og Bandaríkjanna og komandi leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Washington í byrjun júlí en Tillis er annar tveggja forsvarsmanna NATO-þingmannahóps öldungadeildar Bandaríkjaþings og mikill áhugamaður um sambandið yfir Atlantsála. Í Winnpeg var þjóðhátíðardagurinn heldur betur haldinn hátíðlegur. Fjallkonan var Kerrine Wilson en hún lagði blómakrans á styttu Jóns Sigurðssonar og Vilhjálmur Wiium, aðalræðismaður í Winnipeg, hélt ávarp. Hátíðarhöldin héldu áfram á listasafninu í Winnipeg, þar sem haldin var ræða um 25 ára sögu Aðalræðisskrifstofu Íslands í Winnipeg og kór söng íslensk lög.

 

Á fimmtudag var svo haldið árlegt fjalkonumót þar sem 17 fjallkonur komu saman. Aðalræðismaður Íslands, Vilhjálmur Wiium var meðal gesta og hélt stutt ávarp.

Við ljúkum svo föstudagspóstinum í New York þar sem Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, og Thor Thors yngri stilltu sér upp fyrir framan fundarhamarinn sem var upprunalega gjöf Íslands til sameinuðu þjóðanna.

Þá sendu fastafulltrúar Norðurlandanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum Jörundi kveðjuóskir, en hann heldur brátt á veg nýrra verkefna.

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum