Hoppa yfir valmynd
21. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Málefni Mið-Austurlanda efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í Stokkhólmi

Paisa Rajala, ráðuneytisstjóri í finnska utanríkisráðuneytinu, Eva Barløse, ráðgjafi í danska utanríkisráðuneytinu, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Viktoría krónprinsessa í Svíþjóð og Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs. - myndAnders G Warne/Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir mikilvægt að Norðurlöndin séu samstíga og tali áfram einni röddu þegar kemur að öryggi á svæðinu, sérstaklega nú þegar Norðurlöndin eru öll komin í Atlantshafsbandalagið. Ráðherra sótti árlegan sumarfund utanríkisráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi í gær.

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs voru áberandi á fundinum. Gestur fundarins var Michael Fenzel hershöfðingi frá Bandaríkjunum en hann er yfirmaður skrifstofu Bandaríkjahers fyrir öryggissamstarf í Ísrael og Palestínu, sem sinnir þjálfun öryggissveita palestínskra stjórnvalda. Meðal annars var rætt um hugsanlega aðkomu Norðurlandanna að því þjálfunarverkefni.  

„Það var mjög gott að fá innsýn Fenzel í ástandið á bæði Gaza, sem er skelfilegra en orð fá lýst, og á Vesturbakkanum. Stöðva þarf ofbeldisverkin, koma mannúðaraðstoð á svæðið og vinna þarf að framtíðaruppbyggingu þess. Öllum er ljóst að þörfin fyrir mannúðaraðstoð er mikil og hún verður það til lengri tíma litið. Þá þarf einnig að huga að enduruppbyggingu samfélagslegra innviða og pólitískum stöðugleika svo palestínska heimastjórnin geti tryggt öryggi íbúa til frambúðar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir meðal annars um áframhaldandi stuðning ríkjanna við Úkraínu og eftirfylgni með leiðtogafundinum um frið í Úkraínu sem haldinn var í Sviss í síðustu viku og tvíhliða samningum ríkjanna um öryggissamstarf og langtímastuðning við Úkraínu, en öll Norðurlöndin hafa nú undirritað slíka samninga. 

Ráðherrarnir ræddu einnig undirbúning fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Washington í næsta mánuði, stuðning ríkjanna við lýðræðis- og mannréttindaöfl í Belarús og þá var eftirfylgni með fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Afríkuríkja einnig á dagskrá. Þess má geta að Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar tók einnig þátt í umræðum á fundinum.

„Norðurlöndin eru nánustu samstarfsríki Íslands í utanríkismálum og við eigum reglulega góð og hreinskiptin samtöl. Nú þegar við stöndum frammi fyrir gjörbreyttu öryggislandslagi þar sem alþjóðakerfið og alþjóðalög eiga undir högg að sækja, er mikilvægara en oft áður að bera saman bækur okkar og stilla saman strengi,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta