Öll með: Frumvarp um breytingar á örorkulífeyriskerfinu samþykkt á Alþingi
Alþingi samþykkti nú rétt í þessu frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um einfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi. Ráðherra kynnti breytingarnar í apríl undir yfirskriftinni „Öll með“.
Breytingarnar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.
„Í dag urðu þáttaskil. Ákall hefur verið eftir því í ár og áratugi að kerfinu yrði breytt og það gerðist í dag. Til hamingju við öll og til hamingju Ísland,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Með breytingunum tökum við betur utan um fólk en áður og búum til hvata til að gera því kleift að blómstra. Grunnhugsunin er sú að við séum öll með og skiptum öll máli. Áherslan í nýja kerfinu er á að draga úr hindrunum og aðstoða fólk sem vill og getur stundað atvinnu að gera það – en ekki síður að halda utan um þau sem ekki taka þátt á vinnumarkaði,“ segir Guðmundur Ingi.
Alls munu 95% örorkulífeyrisþega fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
„Við erum sömuleiðis að umbylta kerfinu sem heldur utan um þau sem þurfa á endurhæfingu að halda – bæði með því að tryggja samfelldar greiðslur til fólks og með því að einstaklingar með flóknar þjónustuþarfir eru leiddir á milli þjónustuaðila. Þetta eru afar mikilvægar breytingar sem snerta fólk á öllum aldri og út um allt land, auk þeirra sem kunna að slasast og veikjast í framtíðinni,“ segir ráðherra enn fremur.
Nýja kerfið tekur gildi þann 1. september 2025 enda viðamikill undirbúningur sem þarf að eiga sér stað áður til að tryggja hnökralaus skipti á milli greiðslukerfa.
- Sjá vef um breytingarnar: Öll með: Breytingar á örorkulífeyriskerfinu
Af vef um fyrirhugaðar breytingar. Vefurinn opnast þegar smellt er á myndina.
Meðal nýmæla í nýja kerfinu:
Samvinna þjónustuaðila og samhæfingarteymi: Samhæfingarteymi hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Einstaklingurinn er leiddur á milli þjónustuaðila og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.
Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur: Nýr greiðsluflokkur, sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, stoppar í göt sem eru í kerfinu í dag. Með þeim er komið á samfelldu greiðslutímabili fyrir fólk sem þarf á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests.
Örorkulífeyrir í nýju kerfi: Tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar sameinast í einn flokk: Örorkulífeyri. Breytingarnar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Hlutaörorkulífeyrir: Hlutaörorkulífeyrir er nýmæli sem ætlað er að tryggja betur afkomu þeirra sem geta unnið hlutastörf. Hann hefur í för með sér verulega aukinn stuðning við þau sem ekki hafa fulla getu til virkni á vinnumarkaði en sem þó eru talin geta tekið þátt á vinnumarkaði að einhverju leyti.
Dregið úr hindrunum: Fólk sem fær greiddan örorkulífeyri getur í nýju kerfi haft 100.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki. Fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri og er í hlutastarfi getur haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki.
Virknistyrkur: Virknistyrkur grípur fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu með aðstoð Vinnumálastofnunar í allt að 24 mánuði.
Ráðherra mælti í mars síðastliðinn fyrir frumvarpinu á Alþingi. Í framhaldinu hlaut frumvarpið ítarlega meðhöndlun í velferðarnefnd Alþingis þar sem meðal annars var unnið úr athugasemdum og ábendingum í umsögnum. Í meðförum Alþingis var skerpt á ýmsum atriðum frumvarpsins og samþykktar voru nokkrar breytingartillögur frá bæði meiri- og minnihluta velferðarnefndar. Þar á meðal voru samþykktar tillögur um að samþætt sérfræðimat lúti að færni, aðstæðum og heilsu í víðum skilningi og ákvæði um virknistyrk gerð skýrari.
Þá voru samþykktar breytingar á fjárhæðum bóta, annars vegar frá meirihluta velferðarnefndar um að auka hlutfall hlutaörorkulífeyris úr 75% af örorkulífeyri í 82%, eða um 26.000 kr. á mánuði, og frá minnihluta nefndarinnar um 6.000 kr. hækkun heimilisuppbótar á mánuði til þeirra sem búa ein. Einnig var skerpt á eftirfylgni með innleiðingu og árangri af breytingunum þannig að grípa megi til aðgerða sé þess þörf.
Af kynningarfundinum í Safnahúsinu við Hverfisgötu, betur þekkt sem Þjóðmenningarhúsinu.
„Mjög jákvætt að kerfið sé einfaldað“
Breytingarnar eru sem fyrr segir mjög umfangsmiklar og var Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, meðal þeirra sem tók til máls á kynningarfundinum um breytingarnar í apríl. Hún ræddi þar um áhrif þeirra á fólk í endurhæfingu.
„Við hjá VIRK sjáum gríðarleg tækifæri í þessum kerfisbreytingum og það eru miklir hagsmunir þarna fyrir okkar þjónustuþega,“ sagði hún.
Vigdís undirstrikaði að þau sæju mikil tækifæri í nýjum sjúkra- og endurhæfingargreiðslum, til dæmis þegar fólk væri að fara á milli kerfa og þyrfti að bíða. Greiðslurnar myndu gera fólki kleift að hafa trygga framfærslu á meðan á endurhæfingarferlinu stæði.
„Þannig að það þarf ekki að vera í angist um framfærslu sína,“ sagði Vigdís. „Þetta er svo mikilvægt fyrir okkar fólk í endurhæfingunni, að breyta kerfinu og breyta greiðslunum á þennan hátt.“
Þá sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að mjög jákvætt væri að kerfið væri einfaldað. Það myndi einfalda verulega líf skjólstæðinga heilsugæslunnar. „Þessi óvissa, að vera detta á milli í kerfinu, þessi framfærslukvíði, hann hefur verið mjög áþreifanlegur og skiljanlegur,“ sagði hún.
Í nýja kerfinu skipti ekki máli hvort eitthvað sem sett væri upp í endurhæfingu myndi ekki ganga upp – fólk færi áfram í kerfinu og lenti ekki aftur á núllpunkt eins og mörg dæmi væri um í kerfinu í dag. Millistig hefði verið í höndunum á heimilislæknum en nú ætti að koma upp samhæfingarteymum.
„Við fögnum þessu mjög og lítum á þetta til hagsbóta fyrir okkar skjólstæðinga. Og þetta mun svo sannarlega létta álaginu á heilbrigðisstarfsfólki,“ sagði Sigríður Dóra.
Sjá kynningarfundinn í heild sinni:
Loks flutti Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, innlegg og ræddi um bætt greiðslukerfi.
„Við hjá Tryggingastofnun erum mjög jákvæð gagnvart þessum breytingum. Við lítum svo á að þetta muni gera kerfið miklu skilvirkara og það er okkur öllum til hagsbóta,“ sagði Huld.
„Breytingin er í rauninni samvinna, samtal og samhæfing. Þetta formgerir miklu betur samstarf milli stofnana og það hjálpar okkur og það hjálpar líka fólkinu sem er að leita til okkar. Við getum þá vonandi með þessu gripið fólk miklu betur en við erum að gera í dag.“
- Sjá vef um breytingarnar: Öll með: Breytingar á örorkulífeyriskerfinu