Ráðherrar EFTA-ríkjanna undirrita uppfærðan fríverslunarsamning við Chile
Fríverslunarnet EFTA og viðtækar áskoranir í alþjóðaviðskiptakerfinu voru til umræðu á ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, sem lauk í dag í Genf. Á fundinum undirrituðu ráðherrar EFTA-ríkjanna og utanríkisráðherra Chile einnig uppfærðan fríverslunarsamning.
„EFTA ríkin hafa nú gert 31 fríverslunarsamning við 42 lönd og myndar EFTA þannig eitt stærsta og umfangsmesta fríverslunarnet heims. Þessir samningar tryggja íslenskum fyrirtækjum aukinn aðgang og besta mögulega viðskiptaumhverfi á fjölda markaða um allan heim,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Við gildistöku samningsins falla niður tollar í Chile af flestum iðnaðarvörum sem framleiddar eru hér á landi. Þá er kveðið á um niðurfellingu tolla fyrir ýmsar helstu útflutningsafurðir Íslands í landbúnaði, svo sem jógúrt, skyr, osta og lambakjöt. Samningurinn felur einnig í sér bættan markaðsaðgang fyrir þjónustuviðskipti á sviðum þar sem íslensk fyrirtæki búa yfir sérþekkingu, til dæmis við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku og við matvælavinnslu. Í samningnum er jafnframt að finna sérstakan kafla um jafnrétti kynjanna og utanríkisverslun. Þess má geta að árleg vöruskipti Íslands og Chile hafa numið um 2,2 milljörðum að meðaltali undanfarin fimm ár.
Þórdís Kolbrún átti einnig tvíhliða fund með utanríkisráðherra Chile þar sem viðskipti landanna, heimsskautasamstarf og ástandið á Gaza og í Úkraínu voru til umræðu. Undir lok fundarins undirrituðu ráðherrarnir samkomulag um gagnkvæm réttindi til vinnudvalar ungs fólks í ríkjunum.
Samráð með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA
Yfirstandandi fríverslunarviðræður EFTA hafa gengið vel þrátt fyrir víðtækar áskoranir. Ráðherrar fögnuðu til að mynda undirritun fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Indlands frá því fyrr á árinu en með honum er opnað enn frekar á viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og pólitísk samskipti við eitt stærsta hagkerfi og fjölmennasta lýðræðisríki heims. Vonir standa til þess að samningurinn taki gildi fyrir lok næsta árs og er undirbúningsvinna þegar hafin við að greiða fyrir auknum fjárfestingum milli samningsaðila.
Í tengslum við ráðherrafund EFTA er haldinn samráðsfundur ráðherranna með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA. Á fundinum var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna og þróun EES-samningsins. Um er að ræða mikilvægan og gagnlegan vettvang fyrir skoðanaskipti á milli ráðherranna og nefndanna beggja, en unnið hefur verið að því á síðustu árum að styrkja samstarfið þar á milli. Fyrir hönd Íslands sitja í þingmannanefndinni Ingibjörg Isaksen, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Jódís Skúladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Í ráðgjafarnefnd EFTA eru fulltrúar Íslands Sigríður Mogensen frá SI, Hrannar Gunnarsson frá BSRB og Halldór Oddsson frá ASÍ.
Auk Þórdísar Kolbrúnar sátu ráðherrafundinn Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Cecilie Myrseth, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, og Guy Parmelin, efnahagsmálaráðherra Sviss. Fundurinn markar lok eins árs formennsku Sviss innan EFTA samstarfsins.