Hoppa yfir valmynd
26. júní 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fækkun sjóða hafin með sameiningu NSA og Kríu

Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um sameiningu tveggja nýsköpunarsjóða var samþykkt á Alþingi undir lok nýafstaðins þings. Sameiningin markar upphaf vinnu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins (HVIN) við að fækka sjóðum á sínum vegum, eins og boðað var í upphafi árs.

Í frumvarpinu sem samþykkt var á dögunum voru annars vegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) og hins vegar Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður, sameinaðir í nýjan sjóð undir heitinu Nýsköpunarsjóðurinn Kría. Nýsköpunarsjóðnum Kríu er ætlað að veita stuðning við nýsköpun í formi fjárfestinga og mun sjóðurinn geta beitt fjölbreyttum aðferðum við fjárfestingu í samræmi við stöðu fjármögnunarumhverfis og stefnu stjórnvalda hverju sinni. Sjóðnum er ætlað að ná til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, vísisjóða og annarra aðila, svo sem þeirra sem vinna að nýskapandi lausnum við samfélagslegum áskorunum, sjálfbærni og grænum umskiptum.

„Ég fagna þessu fyrsta skrefi í átt að því að einfalda sjóðakerfið á Íslandi, sem er viðamikið og um leið óþarflega kostnaðarsamt. Samkvæmt greiningu HVIN væri hægt að spara ríkinu um 500 milljónir króna árlega með því að fækka sjóðum og koma á laggirnar einni umsóknargátt og munum við áfram vinna ötullega að því á komandi mánuðum.  Með því að sameina krafta nýsköpunarsjóða verða til öflugri fjárfestingar- og styrktarsjóðir sem búa yfir sveigjanleika til að takast á við síbreytilegt umhverfi og fjölbreyttar þarfir,“ segir Áslaug Arna.

Stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu er skipuð fimm einstaklingum til þriggja ára í senn. Stjórnin skal þannig skipuð: einn samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og tveir án tilnefningar. Skal annar þeirra síðastnefndu skipaður formaður.

Nánar má fræðast um fyrirætlanir HVIN um sjóðasameiningar með því að smella hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum