Hoppa yfir valmynd
26. júní 2024 Innviðaráðuneytið

Réttarstaða leigjenda bætt með nýsamþykktum breytingum á húsaleigulögum

Alþingi samþykkti um síðustu helgi frumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um breytingar á húsaleigulögum. Markmið breytinganna er að bæta réttarstöðu leigjenda og auka húsnæðisöryggi. Lögin taka gildi 1. september nk. og taka breytingarnar til samninga sem gerðir eru eftir þann tíma auk samninga sem eru endurnýjaðir eða framlengdir eftir þann tíma. 

Langtímaleiga og aukinn fyrirsjáanleiki

Með lögunum er stuðlað að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð, bæði á meðan samningur er í gildi og þegar samningur er framlengdur eða endurnýjaður. Vísitölubinding leigusamninga, óháð tímalengd þeirra, hefur leitt til þess að erfitt er fyrir leigjendur að sjá fyrir hvernig leiga muni þróast milli mánaða og tíðar hækkanir, m.a. vegna verðbólgu, gera það að verkum að húsnæðiskostnaður leigjenda hækkar oft mikið á samningstímanum. 

Frá og með 1. september verður ekki heimilt að semja um reglubundnar breytingar á leigufjárhæð í samningum sem gerðir eru til 12 mánaða eða skemur. Með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika um leigufjárhæð í styttri samningum og fjölgun leigusamninga til lengri tíma.

Þá verður heimilt að fara fram á breytingu á leigufjárhæð vegna breyttra forsendna í samningum sem gerðir eru til lengri tíma. Getur það verið vegna verulegrar hækkunar rekstrarkostnaðar, aðlögunar leigu að markaðsleigu og hækkunar leigu hjá óhagnaðardrifnu leigufélagi til samræmis við sambærilegar eignir í eigu félagsins. Þetta mun stuðla að því að samningsaðilar velji í auknum mæli að gera ótímabundna samninga eða lengri tímabundna samninga. Þurfa að lágmarki að líða tólf mánuðir frá gildistöku leigusamnings þar til að hægt er að óska eftir breytingu á leigufjárhæð. Þá skýra lögin betur reglur um hvernig leiga skuli ákvörðuð við endurnýjun eða framlengingu leigusamnings. 

Réttur leigjenda til áframhaldandi leigu

Með lögunum eru styrkt ákvæði um forgangsrétt leigjenda til áframhaldandi leigu húsnæðis og leigusala gert að kanna hvort leigjandi hyggist nýta sér forgangsrétt sinn. Þá eru lögfestar ýmsar ástæður sem heimila uppsögn ótímabundins leigusamnings. 

Kærunefnd húsamála efld og aukin fræðsla til aðila leigusamninga

Kærunefnd húsamála verður efld til að tryggja öflugt og skilvirkt réttarúrræði við úrlausn á ágreiningi milli samningsaðila. Lögin kveða meðal annars á um flýtimeðferð mála sem varða ágreining um leigufjárhæð þannig að úrskurður um leiguverð liggi fyrir innan tveggja mánaða. Einnig verður ráðist í fræðsluátak um réttindi á leigumarkaði og aðilum leigusamninga tryggð áframhaldandi lögfræðiráðgjöf um réttindi sín og skyldur þeim að kostnaðarlausu.

Þá mun kærunefndin frá og með gildistöku laganna taka við kærum á ensku þar sem stórir hópar leigjenda hafa ekki íslensku að móðurmáli. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum