Hoppa yfir valmynd
26. júní 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skilnaðarráðgjöf fyrir fjölskyldur á Íslandi

Søren Sander og Ásmundur Einar Daðason undirrita samstarfssamning í mennta- og barnamálaráðuneytinu í dag  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði í dag samning um nýjan stafrænan vettvang á vegum Samvinnu eftir skilnað (SES) með efni fyrir börn frá 3 til 17 ára. Ísland er fyrsta landið til að bjóða upp á þjónustuna á landsvísu en henni er ætlað að hjálpa börnum að takast á við afleiðingar skilnaðar eða sambúðarslita. Samhliða var samið um áframhaldandi þjónustu Samvinnu eftir skilnað sem fjölskyldur hér á landi nýta í auknum mæli.

Stafræni vettvangurinn samvinnaeftirskilnad.is hefur verið aðgengilegur á Íslandi frá árinu 2020, fyrst sem reynsluverkefni í nokkrum sveitarfélögum og svo frá 2022 í öllum sveitarfélögum landsins. Um er að ræða gagnreynt og höfundaréttavarið efni byggt á danskri fyrirmynd sem hjálpar foreldrum og börnum að takast á við breytingar og áskoranir í tengslum við skilnað eða sambúðarslit.

Vefurinn er hugsaður fyrir bæði foreldra og fagfólk. Notkun vefsins hefur farið fram úr væntingum en íslenski vefurinn er með hlutfallslega langflesta notendur borið saman við bæði danska og sænska vefinn. Það sama gildir um notendur efnis fyrir fagaðila, en þeir eru hlutfallslega mun fleiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Vefurinn hefur þróast mikið frá upphafi innleiðingarinnar, bæði er hann orðinn aðgengilegri og töluvert nýtt efni hefur bæst við.

Fjöldi danskra rannsókna hafa sýnt fram á verulegan ávinning fyrir foreldra af því að nota SES. Íslensk rannsókn hefur jafnframt sýnt að foreldrar á Íslandi meta stafræna vettvang SES sem auðveldan í notkun, að fræðsluefnið veiti þeim nýja og nytsamlega þekkingu sem sé trúverðug og fagleg og auki skilning foreldra á áhrifum skilnaðar á sjálf sig og börn sín. Niðurstöður gefa til kynna að foreldrar á Íslandi séu jákvæðir gagnvart því að nýta sér stafrænt velferðarúrræði þegar kemur að skilnaðaraðstoð. Samkvæmt íslenskum lögum ber hinu opinbera að veita skilnaðarráðgjöf, auk þess sem vefurinn fellur vel að þeim lagabreytingum í tengslum við ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Sýnt hefur verið fram á fjárhagslegan ávinning af notkun SES í Danmörku og með því að nota sömu aðferðarfræði má leiða líkum að því að ávinningurinn sé sambærilegur á Íslandi.

 

Notendur í maí 2024 eru 2.019 á Íslandi samanborið við notendur í Danmörku sem eru 4.306 í 36 sveitarfélögum og í Svíþjóð eru 3.103 notendur í 41 sveitarfélagi. Ísland er eina landið sem býður þessa þjónustu á landsvísu.

Samarbejde efter Skilsmisse ApS hefur nú þróað nýjan stafrænan vettvang með aðgengilegu efni fyrir börn frá 3 til 17 ára sem eiga foreldra sem eru ekki saman og eru að alast upp á tveimur heimilum. Efni fyrir börn á aldrinum 3 til 5 ára kallast SES mini og efni fyrir börn á aldrinum 6 til 17 ára kallast SES NXT. Í því efni er um að ræða 28 stafræn námskeið. SES fyrir börn hefur verið þróað á sama hátt og stafræni vettvangur SES fyrir fullorðna, af sálfræðingum á sviði barna- og fjölskyldumála í samstarfi við háskólann í Kaupmannahöfn.

Markmið þess að þróa efni fyrir börn er að aðstoða þau við að takast á við áskoranir og vandamál sem upp geta komið í tengslum við skilnað foreldra sinna og við það að alast upp á tveimur heimilum. Áhersla er á að það sé ekki skilnaðurinn sem slíkur sem ráði því hvernig börnin bregðast við honum heldur skipti sköpum hvernig staðið sé að skilnaðinum. Með SES efninu fyrir börn eru þau studd til að láta rödd sína heyrast innan fjölskyldunnar og þau fá hjálp til að rjúfa þögnina sem getur myndast í tengslum við skilnað í fjölskyldunni. Jafnframt getur efnið verið valdeflandi verkfæri til að takast á við ýmiskonar vanda sem börn eru almennt að kljást við í tengslum við málefnið. Efni hvers aldurshóps er síðan sniðið að málfarslegu og vitsmunalegu þroskastigi barnanna.

Í dag er ekkert sambærilegt efni aðgengilegt fyrir börn hérlendis. Slíkur aðgangur myndi jafnframt samræmast vel 12. gr. Barnasáttmálans um réttindi barna til þátttöku. SES NXT er nú í boði í 20 dönskum sveitarfélögum og í 11 sveitarfélögum í Svíþjóð. Ísland verður fyrsta landið til að bjóða SES NXT á landsvísu fyrir öll börn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta