Hoppa yfir valmynd
26. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra í Genf vegna framboðs Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt fulltrúum frjálsra félagasamtaka. - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fundaði í gær í Genf með stofnunum á sviði mannréttinda, mannúðar og alþjóðaviðskipta. Auk þess átti ráðherra fund með frjálsum félagasamtökum um alvarlegt bakslag í mannréttindamálum á heimsvísu, en frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í starfi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna vegna sérþekkingar sinnar. Þá var fjallað um framboð Íslands til setu í mannréttindaráðinu fyrir tímabilið 2025-2027 og starf Íslands í þágu mannréttinda á alþjóðavettvangi á fundi ráðherra með fastafulltrúum Albaníu, Filippseyja, Indónesíu, Írlands, Japan, Lettlands, Moldóvu og Tyrklands. Ísland hefur beitt sér sem áheyrnarríki í ráðinu allt frá því að setu í ráðinu tímabilið 2018-2019 lauk. Þar má helst nefna að Ísland leiðir árlega ályktun um mannréttindamál í Íran og stóð fyrir aukafundi ásamt Þýskalandi haustið 2022 um mannréttindabrot gegn konum og stúlkum í Íran.

„Það er gríðarlegt áhyggjuefni að fylgjast með því bakslagi sem er að eiga sér stað í mannréttindum í heiminum, einkum í réttindabaráttu kvenna og stúlkna og hinsegin fólks. Mannréttindi eru hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu og ef Ísland hlýtur kjör í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í haust munum við halda áfram að vinna að framgangi þeirra á alþjóðavettvangi með áherslu á réttindi kvenna og stúlkna, hinsegin fólks og barna,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Ráðherra átti jafnframt fund með Mirjana Spoljaric Egger, forseta Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sem gegnir lykilhlutverki í lagalegri vernd og aðstoð við fórnarlömb vopnaðra átaka á grundvelli mannúðarlaga. Stuðningur Íslands við ICRC og þær áskoranir sem stofnunin stendur frammi fyrir, einkum þegar kemur að mannúðaraðgengi, voru til umræðu á fundinum. 

Þá átti Þórdís Kolbrún fund með Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um næstu skref í samningaviðræðum um ríkisstyrki til sjávarútvegs. Auk þess fundaði ráðherra með fastafulltrúum Bandaríkjanna, Síle, Kína, Noregs og Vanúatú um málefni WTO og aðalráðsfund stofnunarinnar í júlí næstkomandi. 

  • Utanríkisráðherra og fastafulltrúar Albaníu, Filippseyja, Indónesíu, Írlands, Japan, Lettlands, Moldóvu og Tyrklands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í Genf - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Mirjana Spoljaric Egger, forseta Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). - mynd
  • Utanríkisráðherra átti fund með Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um næstu skref í samningaviðræðum um ríkisstyrki til sjávarútvegs.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum