Hoppa yfir valmynd
27. júní 2024 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimilar vinnu við hækkun varnargarðs

Dómsmálaráðherra gaf ríkislögreglustjóra nýlega heimild til að hefja vinnu við hækkun og styrkingu varnargarða í nágrenni Grindavíkur til þess að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir og aðrir almannahagsmunir verði fyrir tjóni af völdum náttúruvár sem tengjast eldstöðvarkerfum á Reykjanesskaga. Dómsmálaherra hefur nú tekið alls sex ákvarðanir um að reisa skuli eða styrkja varnargarða á þessu svæði.

Þann 18. júní sl. braust hrauntunga yfir varnargarðinn við Svartsengi. Hraunið hækkaði jafnt og þétt við varnargarðinn og áður en gosi lauk var unnið í kappi við tímann með jarðvegsframkvæmdum og hraunkælingu. Markmiðið með hraunkælingunni var að hægja á framgangi hrauns og leitast við að stöðva hrauntauma í myndun í þeim tilgangi að styðja við jarðvegsvinnu og verja vinnusvæðið. Hraunkælingu hefur nú verið beitt á fjórum staðsetningum við varnargarð L1 og við Grindavíkurveg. Að mati almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra hefur mikill lærdómur verið dreginn af framkvæmd hraunkælingar  og er það metið sem svo að þeim markmiðum sem sett voru í upphafi hafi verið náð. Mikilvægt var að halda áfram vinnu við að hækka varnargarðinn. Fyrri hluta júní lagði ríkislögreglustjóri til við dómsmálaráðherra að ráðist yrði sem fyrst í viðbætur við varnargarðana í Svartsengi með hækkun varnargarðs. Dómsmálaráðherra tók ákvörðun að fenginni framangreindri tillögu ríkislögreglustjóra. Aukin afköst voru því við að hækka garðinn því þessi varnarlína er afar mikilvæg. Allar innri línur eru alltaf erfiðari og stutt er í Orkuverið. Staðan var orðin frekar tæp og unnið var í kapp við tímann. Áætlaður viðbótarkostnaður er um 250-350 milljónir króna.

Heimildir dómsmálaráðherra í almannavörnum

Samkvæmt lögum um almannavarnir nr. 82/2008 fer dómsmálaráðherra með málefni almannavarna og annast embætti ríkislögreglustjóra málefni almannavarna í umboði ráðherra. Markmið almannavarna er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, t.d. af völdum náttúruhamfara.
Með lögum um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga nr. 84/2023, sem samþykkt voru 13. nóvember 2023, veitti Alþingi dómsmálaráðherra heimild til að taka ákvörðun, að fenginni tillögu embættis ríkislögreglustjóra, um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna sem miða að því að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir og aðrir almannahagsmunir verði fyrir tjóni af völdum náttúruvár sem tengjast eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, sbr. 2. gr laganna.

Öryggi og varfærni

Dómsmálaráðherra hefur lagt ríka áherslu á að við framkvæmd varnargarða sé tekið mið af stöðu og þróun jarðhræringa hverju sinni og mat lagt á nauðsyn næstu áfanga í samráði við ráðherra eftir þörfum. Þannig verði meðalhófs gætt með því að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur með tilliti til aðstæðna hverju sinni. Ráðherra hefur lagt ríka áherslu á að ríkislögreglustjóri hafi samráð við hlutaðeigandi aðila, viðeigandi stjórnvöld, stofnanir og landeigendur við byggingu og nánari útfærslu varnargarða og að lágmarka áhrif framkvæmda á umhverfi, minjar, og náttúru eins og kostur er. Við framkvæmdirnar sé fyllsta öryggis gætt í hvívetna, þá sér í lagi með tilliti til starfsmanna á svæðinu og staðsetningu þeirra á verkstað.

Kostnaður við varnargarða

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra var heildarkostnaður framkvæmda upphaflega metinn á um 6,0-6,5 milljarðar króna en er með öllum viðbótum í dag talinn verða nærri 7 milljarðar króna. Í þeim kostnaði eru þær hækkanir og styrkingar sem nefndar hafa verið, innri garður í námunda við orkuverið og ýmiss konar aðlögun vegna vegtenginga og umhverfissjónarmiða við lok framkvæmda.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta