Hoppa yfir valmynd
27. júní 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úthlutun úr Þróunarsjóði námsgagna 2024

Þróunarsjóður námsgagna hefur úthlutað 76,4 m.kr. til 37 verkefna. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í mennta- og barnamálaráðuneytinu í vikunni.

Þróunarsjóður námsgagna styður við nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna í leik- grunn- og framhaldsskólum. Markmið sjóðsins er að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla og stefnu stjórnvalda. Umsýsla sjóðsins er hjá Rannís.

„Það er svo sannarlega tilefni til þess að fagna í dag og sjá alla þá grósku sem má finna í námsgagnaútgáfunni. Mikilvægt er að efla og tryggja gæði, framboð og fjölbreytileika námsgagna til að styðja við nám og kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Samtals bárust sjóðnum 93 gildar umsóknir að undangenginni auglýsingu. Forgangsatriði sjóðsins voru: Námsefni ætlað börnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn vegna tungumálakennslu, námsefni sem miðar að markvissri eflingu íslensks orðaforða og hugtakaskilnings í ýmsum námsgreinum og námsefni sem styður við stærðfræði og náttúrugreinar.


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum