Gott að eldast: Miðstöð í öldrunarfræðum komið á fót
Nýrri Miðstöð í öldrunarfræðum hefur verið komið á fót. Henni er ætlað að efla nýsköpun og þróun þjónustu við eldra fólk, meðal annars með því að safnað verði á einum stað saman upplýsingum um stöðu eldra fólks hér á landi. Þjónustusamningar vegna miðstöðvarinnar voru undirritaðir í Grósku í dag en þeir eru hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks, Gott að eldast.
Aðgerðaáætlunin inniheldur 19 aðgerðir og fjöldi þeirra er þegar hafinn. Ein af aðgerðunum snýr að eflingu Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) og aukið hlutverk hennar innan öldrunarfræða hér á landi. Nafninu hefur nú verið breytt í Miðstöð í öldunarfræðum og Háskóli Íslands tekið yfir leiðandi hlutverk af Landspítala.
Það á að vera gott að eldast
Hjá Miðstöð í öldrunarfræðum verður meðal annars gerð rannsókn á framgangi og niðurstöðum þróunarverkefna á vegum Gott að eldast. Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög taka nú þátt í slíkum þróunarverkefnum sem ganga út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Verkefnunum verður fylgt eftir þannig að gagnlegum upplýsingum verði safnað bæði meðan á þeim stendur og við lok þeirra.
„Það á að vera gott að eldast og við viljum finna góðar lausnir þar sem við fléttum saman þá þætti heimaþjónustu sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Þróunarverkefnin sem farin eru af stað eru afar spennandi og viðamikil. Til að meta áhrif þeirra er mikilvægt að rannsaka og safna gögnum og Miðstöð í öldrunarfræðum mun þar gegna veigamiklu hlutverki,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Gagnadrifin nálgun á skipulagi þjónustu við eldra fólk og hagnýting gagna spilar stórt hlutverk í aðgerðaáætlunni Gott að eldast og styður við þau markmið sem þar koma fram. Mikilvægt þykir til dæmis að til verði mælaborð þar sem hægt verði að sækja í rauntíma ýmsar tölulegar upplýsingar er varða eldra fólk.
„Meginmarkmiðið með aukinni gagnaöflun og nýtingu gagna er að efla þjónustuna og stuðla að þróun hennar, með tilliti til stefnumótunar, skipulags, vísinda og rannsókna, í þágu þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Stefnt er að því að í Miðstöð í öldrunarfræðum verði einnig haldið utan um niðurstöður úr margvíslegum könnunum, meðal annars um líðan og hagi eldra fólks.
Leiðandi hlutverk HÍ
Háskóli Íslands mun sem fyrr segir gegna leiðandi hlutverki í nýju miðstöðinni.
„Rannsóknastofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum hefur staðið fyrir öflugri rannsóknastarfsemi innan öldrunarlækninga og fræðslu um málefni sem tengjast öldrun síðastliðin 25 ár. Miðstöð í öldrunarfræðum tekur nú við þessari mikilvægu starfsemi og er það von Háskóla Íslands að starfsemin muni eflast enn frekar á komandi árum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
„Landspítali sinnir bæði mikilvægri þjónustu og vísindastarfi í þágu aldraðra og við höfum átt gott samstarf við Háskóla Íslands. Málaflokkurinn er mjög yfirgripsmikill og fjölþættur og þótt heilbrigðisþjónusta sé mikilvæg er hún langt í frá eini þátturinn sem hefur áhrif á lífsgæði og velsæld aldraðra. Leiðandi hlutverk Háskóla Íslands mun ýta undir aðkomu fleiri fræðasviða en sem fyrr með öflugri aðkomu Landspítala,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
Við undirritun þjónustusamninganna í Grósku í dag voru auk þess viðstödd Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ólafur Þór Gunnarsson, formaður verkefnastjórnar Gott að eldast sem stýrði athöfninni.
Sjá nánar:
- Vefsíða: Gott að eldast
- Aðgerðaáætlun: Gott að eldast
Frá undirrituninni.