Ný legudeildarbygging við Sjúkrahúsið á Akureyri
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, undirritaði í liðinni viku samning vegna hönnunar á nýrri 10.000 fermetra legudeildarbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Undirritunin fór fram við hátíðlega athöfn á Sjúkrahúsinu á Akureyri þann 27. júní.
Samningurinn er við hönnunarhóp sem samanstendur af Verkís hf, TBL arkitektum, JCA Ltd. og Brekke & Strand.
Nýbyggingin mun umbylta allri aðstöðu á sjúkrahúsinu fyrir bæði starfsfólk og notendur þjónustunnar. Þar verða legudeildir skurð og lyflækningadeilda og dag-, göngu- og legudeild fyrir geðþjónustu sjúkrahússins.
,,Þetta eru ánægjuleg og tímabær tímamót fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri sem og heilbrigðiskerfið í heild sinni. Hin nýja bygging mun styðja vel við þá öflugu og góðu þjónustu sem veitt er á Sjúkrahúsinu á Akureyri á hverjum degi“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Tillagan að nýrri legudeild við sjúkrahúsið kom fyrst fram árið 2002.
Gert er ráð fyrir að verklegar framkvæmdir hefjist með jarðvinnu árið 2025 og að húsnæðið verði tekið í notkun í árslok 2028.
Að undirritun samningsins um hönnun nýbyggingarinnar komu Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, Ivon Stefán Cilia, arkitekt og framkvæmdastjóri TBL, Hrafnhildur Ólafsdóttir, arkitekt og framkvæmdastjóri JCA, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Eiríkur Steinn Búason, verkefnastjóri hjá Verkís og Jóhannes Bjarnason, formaður Hollvina SAk. Hildigunnur og Jóhannes voru vottar að undirskriftum samningsins.
NLSH ohf. sem fer með verklegar framkvæmdir varðandi uppbyggingu innviða sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu mun halda utan um framkvæmdirnar í samvinnu við stjórnendur Sjúkrahússins á Akureyri.