Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stjórnunar- og verndaráætlun Fjaðrárgljúfurs staðfest

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfestir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi.  - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi. Stjórnunar- og verndaráætlunin var unnin í samvinnu við landeigendur á Heiði og sveitarfélagið, samhliða vinnu við friðlýsingu svæðisins sem friðlýst var fyrr í sumar.

Fjaðrárgljúfur er stórbrotið gljúfur, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg og mjúkt móbergið gerir það að verkum að gljúfrið er gott dæmi um virk ferli landmótunar sem hófst fyrir um 10.000 árum og er enn í gangi.

Markmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Fjaðrárgljúfur er að móta framtíðarsýn og stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndar gildi þess til framtíðar. Einnig er markmiðið að samræma fjölbreytta hagsmuni þeirra sem nýta svæðið til landbúnaðar, ferðaþjónustu, útivistar og rannsókna með hag náttúru og mannlífs að leiðarljósi.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Samvinna allra sem komið hafa að friðlýsingu og gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir þetta fallega svæði er algjörlega til fyrirmyndar. Það er okkar ósk að svo verði áfram nú þegar fyrir liggur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun. Svæðið á skilið að náttúruverndin fá tilhlýðilegan sess og það er ekki síður mikilvægt fyrir allan þann fjölda ferðamanna sem hingað koma að landvarsla sé sýnileg og innviðir traustir. Stjórnunar- og verndaráætlunin og áframhaldandi gott samstarf landeigenda og þeirra sem umsjón hafa með landvörslu svæðisins mun stuðla að því“.

Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra svæða og er markmiðið með friðlýsingu slíkra svæða að vernda einstakar náttúrumyndanir sökum fræðilegs gildis, fegurðar, eða sérkenna.

Fjaðrárgljúfur

Fjaðrárgljúfur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum