Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýir samningar um rekstur Fab Lab-smiðjanna á Íslandi

Nýir samningar um rekstur Fab Lab-smiðjanna á Íslandi - myndLjósmynd: Róbert Reynisson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hafa ákveðið að framlengja samninga ráðuneytanna við Fab Lab-smiðjurnar á Íslandi um þrjú ár. Samhliða verða framlögin hækkuð um samtals 91 m.kr. á samningstímabilinu, eða úr 324 m.kr. í 415 m.kr. á næstu þremur árum.

Smiðjurnar þjóna annars vegar tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum og hins vegar íbúum, atvinnulífi og frumkvöðlum. Þær eru vettvangur til nýsköpunar og eru búnar tækjum og tólum til þess að gera frumgerðir og efla þekkingu á stafrænni framleiðslutækni. Smiðjurnar lúta alþjóðlegum skilgreiningum um Fab Lab sem tryggir aðgengi almennings, opnunartíma, ákveðin tækjakost og aðferðarfræði. 

Samtals mun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið styrkja smiðjurnar um 71 m.kr. á ári, eða samtals 235 m.kr. á samningstímabilinu og mennta- og barnamálaráðuneytið, í samstarfi við framhaldsskólana, mun styrkja smiðjurnar um 60 m.kr. á ári, eða samtals um 180 m.kr. á samningatímabilinu. Auk þess mun HVIN styrkja allar smiðjurnar um 2 m.kr. með einskiptisgreiðslu við upphaf samningstímans 2024 sem ætlaðar eru í tækjakaup og uppfærslu tækja- og hugbúnaðar sem og endurmenntun starfsfólks til að tileinka sér nýja tækni.

Samningar við Fab Lab-smiðjur á Íslandi runnu út um síðustu áramót, en grunnurinn að þeim samningum var lagður með þingsályktun Alþingis frá árinu 2018. Að samningunum um Fab Lab-smiðjurnar hafa staðið háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið, mennta og barnamálaráðuneytið og sveitarfélögin á hverjum stað ásamt ýmsum fyrirtækjum og stofnunum. Ákveðið hefur verið að endurnýja þessa samninga og er unnið að því í samtali við þessa samstarfsaðila, en 11 smiðjur eru styrktar með þessum hætti hringinn í kringum landið. Ráðuneytin hafa lagt mikla áherslu á samstarf við heimamenn á viðkomandi stöðum um fjármögnun og uppbyggingu smiðjanna.

Virkt samstarf er á milli smiðjanna en Fab Lab Ísland heldur utan um fagstarf smiðja, miðlar kunnáttu og reynslu og sækir nýja þekkingu. Umsýsla og utanumhald Fab Lab á Íslandi er í höndum Fab Lab Vestmannaeyja og er það ástæða fyrir því að framlag til smiðjunnar í Vestmannaeyjum hefur verið hærra. Í nýjum samningum verður gert ráð fyrir að forsvar fyrir Fab Lab Ísland fari á milli smiðjanna á hverju samningstímabili.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta