Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þenslan í rénun – aukið jafnvægi í þjóðarbúinu

Markmið stjórnvalda um aukið efnahagslegt jafnvægi, minni verðbólgu og að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta ganga hratt eftir. Efnahagsumsvif standa nú nokkurn veginn í stað eftir alls 13% hagvöxt undanfarin tvö ár. Kólnun umsvifa á sér stað nokkuð þvert á atvinnugreinar að undanskildum byggingariðnaði.

Nýjustu verðbólgumælingar bera þess merki að minni eftirspurn heimila hefur dregið markvert úr verðhækkunum eins og að er stefnt. Minni eftirspurn og þar með minni verðhækkanir á varanlegum vörum svo sem húsgögnum, raftækjum og fatnaði eru gjarnan með fyrstu merkjum þess að tekið sé að hægja á. Verð á húsgögnum og raftækjum hefur staðið í stað síðustu 12 mánuði og verð á fatnaði hefur hækkað í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Haldi vísitala neysluverðs áfram þeim takti sem hún hefur verið á undanfarna þrjá mánuði lækkar verðbólga úr 5,8% nú í 5% í lok árs.

 

Helstu mælikvarðar benda eindregið til markvert minni vaxtar

Greinileg merki eru í nýjustu hagtölum um kólnun umsvifa á fyrstu 4-5 mánuðum ársins. Velta fyrirtækja dróst saman um 2% að raunvirði í mars og apríl (að tilteknum sveiflukenndum greinum undanskildum). Skýrar vísbendingar eru í veltutölum um að einkaneysla hafi enn kólnað í vor. Heildarlaunagreiðslur í hagkerfinu vaxa nú helmingi hægar en í haust og dragast saman að raunvirði. Þessa þróun þarf að setja í samhengi við mikinn hagvöxt undanfarinna ára. Hægari taktur nú stuðlar að minni verðbólgu og lækkun vaxta.

Mestur vöxtur í byggingariðnaði

Þrátt fyrir ofangreint er enn töluverður þróttur í hagkerfinu. Í fyrsta lagi fjölgar störfum enn merkilega hratt miðað við aðrar hagstærðir, eða um 3% milli ára, og nokkuð þvert á atvinnugreinar, þótt hægt hafi á starfafjölguninni víðast hvar. Í öðru lagi hefur innlend eftirspurn enn sem komið er haldið sér ívið betur en væntingar stóðu til eftir að hægja fór á umsvifum í hagkerfinu. Í þriðja lagi eru mikil umsvif á byggingamarkaði og töluverð umsvif á húsnæðismarkaði.

 
 

Aukið jafnvægi og lækkun verðbólgu hefur beina þýðingu fyrir vaxtahorfur

Aðeins eru um 18 mánuðir síðan aðhaldsstig peningastefnu (raunvextir) byrjaði að hækka en það er um það bil sá tími sem talið er að taki fyrir áhrif vaxtahækkana á hagkerfið að verka að fullu. Áhrif hækkunar raunstýrivaxta úr -3% í um 3,5% undanfarið eitt og hálft ár munu koma enn frekar fram á seinni helmingi þessa árs og því næsta.

Í nýjustu yfirlýsingu peningastefnunefndar í maí sagði nefndin að auknar líkur væru á því að núverandi aðhaldsstig væri hæfilegt. Eðlilegast er að túlka það þannig að raunvextir séu taldir hæfilegir til þess að koma verðbólgu nægilega hratt í markmið. Verðbólga hefur síðan þá lækkað í takt við spá bankans, en nefndin hefur bent á að mótun peningastefnunnar muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum