Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2024 Innviðaráðuneytið

Vel heppnuð heimsókn sendiráðunauta ESB og EFTA til Íslands

Sendiráðunautar ESB og EFTA ríkja á sviði flugs og siglinga ásamt starfsfólki á skrifstofu samgangna í innviðaráðuneytinu. - mynd

Sendiráðunautar ESB og EFTA ríkja á sviði flugs og siglinga með aðsetur í sendiráðum aðildarríkjanna í Brüssel heimsóttu Ísland í lok júní í boði íslenskra stjórnvalda. Tilgangurinn var að kynna sérstöðu Íslands á sviði flugsamgangna og áhrif löggjafar EES í siglinga- og flugmálum á séríslenska hagsmuni.

Sendiráðunautar á þessum sviðum taka þátt í vinnunefndum ráðherraráðs ESB til að samræma afstöðu aðildarríkja til löggjafar sambandsins. Þegar löggjafartillaga hefur verið samþykkt innan ráðherraráðsins er samið um endanlega útgáfu við Evrópuþingið og löggjöfin svo birt í stjórnartíðindum ESB. Löggjöfin er í framhaldinu tekin inn í EES-samninginn með nauðsynlegum tæknilegum aðlögunum.

Fjölbreytt dagskrá

Tveggja daga dagskrá heimsóknarinnar var fjölbreytt. Fyrri dagurinn hófst í flugstjórnarmiðstöðinni fyrir N-Atlantshafið. Þar flutti Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins ávarp, Kjartan Briem framkvæmdastjóri Isavia kynnti flugleiðsöguþjónustu fyrir N-Atlantshafið og Sara Barsotti jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni flutti erindi um eldvirkni á Íslandi og áhrif öskugosa á flug.

Því næst var farið á Keflavíkurflugvöll þar sem haldinn var vinnufundur um umhverfismál í flugi og mikilvægi flugs fyrir Ísland, þ.m.t. tengiflug um Keflavíkurflugvöll. Valgerður B. Eggertsdóttir frá innviðaráðuneytinu stýrði fundi og flutti erindi um flugstefnu Íslands. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair og Anna Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri hjá Isavia kynntu starfsemi fyrirtækja sinna, áherslur og áskoranir framundan. Eðvarð Bjarnason ráðgjafi fór yfir útreikninga um áhrif viðskiptakerfis með losunarheimildir á samkeppnisstöðu tengiflugvalla í Evrópu, sérstaklega fyrir Keflavíkurflugvöll þar sem flugleiðir til og frá Evrópu eru óvenju langar. Loks kynnti Ingólfur Friðriksson, deildarstjóri EES-mála í utanríkisráðuneytinu, stefnu Íslands í umhverfismálum og vinnu starfshóps um úttekt á mögulegri framleiðslu á vistvænu flugvélaeldsneyti. Þá fjallaði hann um aðlögun Íslands við innleiðingu breytinga á viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi, aðkomu Íslands að mati á áhrifum kerfisins og tillögur um breytingar á kerfinu sem framkvæmdastjórn ESB áætlar að leggja fram um mitt ár 2026.

Seinni dagurinn byrjaði með heimsókn til Landhelgisgæslunnar. Þar kynntu Auðunn Kristinsson aðgerðarstjóri hjá Landhelgisgæslunni, Kristín Helga Markúsdóttir staðgengill forstjóra Samgöngustofu og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar starfsemi stofnana sinna í þágu öryggis sjófarenda. Öryggisáætlun sjófarenda, sjálfvirkt tilkynningarkerfi og nýtt upplýsingakerfi um veður og sjólag var meðal þess sem var kynnt.

Hópurinn heimsótti síðan höfuðstöðvar Eimskipa þar sem Óskar Magnússon stjórnarformaður Eimskips og Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna kynntu starfsemi sína og aðgerðir í umhverfismálum. Heimsókn sendiráðunautanna lauk í Slysavarnarskóla sjómanna í Sæbjörginni við Bótarbryggju. Þar kynnti Bogi Þorsteinsson skólastjóri starfsemi skólans og árangur Íslands í öryggismálum sjófarenda.

  • Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair kynnti starfsemi fyrirtækisins. - mynd
  • . Valgerður B. Eggertsdóttir frá innviðaráðuneytinu stýrði fundi og flutti erindi um flugstefnu Íslands. - mynd
  • Hópurinn heimsótti þyrluskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum