Áfram unnið að þróun lausna á stafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk
Tillögur starfshóps um þróun lausna á stafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk voru kynntar í ríkisstjórn á dögunum. Vinnan byggir á viljayfirlýsingu sem fjórir ráðherrar undirrituðu vorið 2023 og var hópnum falið að útfæra tillögur og tryggja aukið samstarf á milli aðila innan og utan stjórnkerfisins.
Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Samtaka fjármálafyrirtækja, ÖBÍ réttindasamtaka, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Auðkennis og Réttindagæslu fatlaðs fólks. Fulltrúi dómsmálaráðuneytis starfaði enn fremur með hópnum.
Hópnum var ætlað að leggja sérstaka áherslu á aðgengi fólks að rafrænni fjármálaþjónustu bankanna og heilbrigðisþjónustu, auk þess að skoða laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna rafrænna auðkenna og koma með tillögur að þróun rafrænna lausna sem gagnast fötluðu fólki.
Aukið aðgengi fatlaðs fólks
Meðal tillagna er að gerð verði aðgengisúttekt á innskráningarþjónustu Stafræns Íslands. Lagt er til að Stafrænt Ísland muni ásamt ÖBÍ réttindasamtökum og Landssamtökunum Þroskahjálp vinna að því að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni opinberri þjónustu þar sem notast er við umrædda innskráningarþjónustu.
Þá má nefna tillögu sem miðar að því að greina hvaða auðkenniskröfur eru nauðsynlegar fyrir hvaða tegund gagna og þjónustu, auk tillögu sem gengur út að tryggja að hefðbundnar leiðir að upplýsingum og þjónustu haldist opnar þrátt fyrir þróun í upplýsingatækni.
Loks má nefna tillögu um að komið verði á samráðsvettvangi með fulltrúum hins opinbera og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks vegna innleiðingar á stafrænni þjónustu og auðkenningu hjá hinu opinbera.
Málið sett á dagskrá í norrænu samstarfi
Auk þess að vinna lausnum hér á landi hafa íslensk stjórnvöld sett stafrænt aðgengi fatlaðs fólks á dagskrá í norrænu samstarfi.
Árið 2023 undirrituðu félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna yfirlýsingu um mikilvægi þess að fatlað fólk fái greiðari aðgang að stafrænum lausnum. Yfirlýsingin var undirrituð á fundi ráðherranna í Reykjavík.
Viljayfirlýsing undirrituð vorið 2023.
Málið sett á dagskrá í norrænu samstarfi.