Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stjórnunar- og verndaráætlun staðfest fyrir Litluborgir, Kaldárhraun og Gjárnar

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnafjarðar, og Inga Dóra Hrólfsdóttir, Umhverfisstofnun. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir annars vegar náttúruvættið Litluborgir og hins vegar náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar. Náttúruvættin eru bæði í landi Hafnafjarðarbæjar.

Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem mynduðust við að hraun rann yfir stöðuvatn. Svæðið var friðlýst árið 2009.

Kaldárhraun og Gjárnar voru einnig friðlýstar 2009 og er hraunið eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnafjarðarbæjar. 

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er gaman að fá að staðfesta stjórnunar- og verndaráætlun fyrir bæði þessi náttúruvætti. Þau eru á svæði sem er mjög vinsælt útivistarsvæði og því ekki seinna vænna að nú fyrir liggi áætlun um hvernig standa skuli að vernd svæðisins, en einnig hvernig tryggt sé að fólk geti notið þeirra. Ég vil þakka Hafnfirðingum fyrir framsýnina og Umhverfisstofnun fyrir þá vinnu sem hér liggur að baki.“

Í stjórnunar- og verndaráætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára. Stjórnunar- og verndaráætlunin var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar og Hafnafjarðarbæjar.

Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra svæða og er markmiðið með friðlýsingu slíkra svæða að vernda einstakar náttúrumyndanir sökum fræðilegs gildis, fegurðar, eða sérkenna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta