Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda einstaklinga árið 2024

Í kjölfar álagningar ríkisskattstjóra vegna opinberra gjalda á einstaklinga árið 2024 tók ráðuneytið saman helstu niðurstöður, þar sem tekið er mið af tekjum einstaklinga árið 2023 og eignastöðu þeirra 31. desember 2023.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Fjöldi framteljanda í álagningu var 344.700 og fjölgar um 12.600 milli ára. Almennur tekjuskattur nam 254 ma.kr og fjármagnstekjuskattur 52 ma.kr. Samtals nam tekjuskattur til ríkissjóðs 306 ma.kr. og 349 ma.kr rann í útsvar til sveitarfélaga. Hlutfall tekjuskatta til ríkissjóðs var 46,7% á móti 53,3% sem rann til sveitarfélaga.
  • Í þeim tilvikum þar sem persónuafsláttur er nýttur til greiðslu útsvars ábyrgist ríkissjóður greiðslu útsvars til sveitarfélaganna. Ríkissjóður greiðir þannig að öllu leyiti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum. Persónuafsláttur nýttur til greiðslu útsvars nam 12,6 ma.kr. Útsvar greitt af ríkissjóði nam 3,6% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.
  • Tæplega 249 þúsund einstaklingar fengu álagðan tekjuskatt og fjölgaði um 3.500 á milli ára. Þá fengu tæplega 329 þúsund einstaklingar álagt útsvar. Framteljendur sem höfðu engar tekjur sem falla undir tekjuskatts- og útsvarsstofn voru 15.600. Hlutfall tekjulausra af heildarfjölda jókst um 0,9% á milli ára sem endurspeglast í hlutfallslegri fækkun þeirra sem greiddu tekjuskatt og útsvar.

  • Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna hækkaði um 11,8% frá fyrra tekjuári og nam 2.252 ma.kr árið 2023. Stofninn reiknast út frá öllum launum og ígildi launa, hlunninda, lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbótum, styrkjum og hvers kyns öðrum greiðslum að teknu tilliti til frádráttarheimilda.
  • Af einstaka tekjuliðum hækkuðu laun og hlunnindi um 206 ma.kr (12,4%), greiðslur úr lífeyrissjóðum um 43,5 ma.kr (19%) og frá Tryggingastofnun um 17,4 ma.kr (9,5%). Atvinnuleysisbætur lækkuðu um 11% á milli ára og námu útgreiðslur 20,7 ma.kr.
  • Þeir sem ekki skiluðu framtali voru um 14.500 einstaklingar og fengu þeir áætlaðan tekjuskattsstofn upp á 77,6 ma.kr. að meðtöldu álagi. Það er 3,4% af tekjuskatts- og útsvarsstofni og áþekkt við árið á undan.
  • Tekjuskattsþrepin eru þrjú og hækka þrepamörkin miðað við tólf mánaða breytingu í vísitölu neysluverðs að viðbættu 1% framleiðniviðmiði um hver áramót. Rúmur helmingur þeirra sem greiddu tekjuskatt til ríkis eða sveitarfélags voru í miðþrepinu, eða tæp 55%. Tæp 40% voru í fyrsta þrepinu og rúm 5% í efsta þrepi. Hópurinn í efsta þrepi taldi rúm 18 þúsund manns og fækkaði um 1.100 frá fyrra ári.
  • Einstaklingur sem var með einhvern tekjuskattsstofn á aldrinum 25 til 67 ára var að meðaltali með 709.100 kr. í mánaðartekjur. Í efra fjórðungsmarki var tekjuskattsstofn einstaklinga 872.800 kr. á mánuði og í neðra fjórðungsmarki var hann 431.000 kr á mánuði.
  • Frá árinu 2021 hefur frítekjumark vegna vaxta verið 300 þ.kr. á ári fyrir einstakling og 600 þ.kr hjá samsköttuðum. Á það við um vaxtatekjur og hinsvegar tekjur af hlutabréfaeign í formi arðs og söluhagnaðar í félögum á skráðum á skipulögðum verðbréfamarkaði. Fjármagnstekjur eru taldar fram af því hjóna sem hefur hærri tekjur.
  • Fjármagnstekjur námu 284 ma.kr sem reiknuðust á 245.500 einstaklinga og hækkuðu um 57 ma.kr (25,1%) milli ára. Skipta má fjármagnstekjum í arð, vexti, leigu, söluhagnað og höfundarréttargreiðslur. Af undirliðum fjármagnstekna þá hækkuðu allir undirliðir að undanskildum höfundarréttargreiðslum sem lækkuðu um tæpar 600 m.kr. Arður af hlutabréfum er stærsti einstaki liðurinn með 101.287 m.kr. en milli ára hækkuðu vaxtatekjur hlutfallslega mest (82,2%) og námu 84 ma.kr.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur nam 52 ma.kr. af því var 460 m.kr skattaafsláttur og greiddur fjármagnstekjuskattur í ríkissjóð nam því 51,7 ma.kr. sem er 20,7% aukning frá fyrra ári.
  •  Eins og fyrr segir miðast eignastaða við 31. desember 2023. Heildareignir landsmanna voru metnar á 12.345 ma.kr en á móti þeim eignum námu skuldir 3.150 ma.kr. Verðmæti eigna jókst um 1.463 ma.kr. (13,4%) og skuldir jukust um 170 ma.kr. (5,7%) á milli ára. Eigið fé jókst um 1.292 ma.kr. og munar þar mest um að matsverð fasteigna hækkar um 1.286 ma.kr. (15,5%) á milli ára.

Vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði ákváðu stjórnvöld m.a. að stórauka stuðning við foreldra og barnafjölskyldur umfram það sem áður hafði verið ákveðið. Grunnbætur voru hækkaðar, viðmiðunarmörk skerðinga voru hækkuð og skerðingarhlutfall vegna tekna var lækkað. Barnabætur ársins 2024 reiknast út frá tekjum ársins á undan og eru ákvarðaðar í álagningunni. Greiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta nema 19,7 ma.kr. og munu ríflega 67 þúsund foreldrar njóta þeirra sem er 11.400 fleiri foreldrar en árið áður eða um 6 þúsund fjölskyldur. Á föstu verðlagi eru aukin útgjöld til barnabóta 4,7 ma.kr. á milli ára.

Auk mikillar aukningar til barnabóta er sérstakur stuðningur að þessu sinni við skuldsett heimili. Sérstakur vaxtastuðningur sem er eigna- og tekjutengdur var ákvarðaður í kjölfar álagningarinnar og verður greiddur inn á höfuðstól íbúðalána í haust, nema skuldari hafi óskað sérstaklega eftir því á þjónustusíðu Skattsins að stuðningurinn komi fremur til lækkunar afborgana út árið 2024. Um er að ræða einskiptis aðgerð sem er viðleitni stjórnvalda til að koma til móts við hækkandi vaxtabyrði af íbúðalánum. 

 

Sérstakur vaxtastuðningur, helstu tölur

Vaxtastuðningur alls

5,5 ma.kr

Fjöldi einstaklinga

56.400

Fjöldi samskattaðra

17.000

Sérskattaðir*

2.600

Einhleypir

16.300

Einstæðir foreldrar

3.400

*Sérskattaðir sambúðaraðilar  - báðir aðilar fá sinn helming af fjárhæðinni.

Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 41,1 ma.kr. en þar af verður 7,4 ma.kr. ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir standa 33,7 ma.kr. sem ríflega 210 þúsund manns áttu í inneign hjá ríkissjóði 31. maí sl. Um er að ræða endurgreiðslur á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Þá á ríkið kröfur á hluta gjaldenda sem verða á gjalddaga síðari hluta ársins 2024 vegna vangreiddra skatta ársins 2023 og eldri krafna. Sú fjárhæð nemur alls 78,2 ma.kr.

 

Útborgun til einstaklinga í kjölfar álagningarinnar

M.kr.

2023

2024

Barnabætur

3.856

6.417

Vaxtabætur

1.658

1.183

Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars

17.633

21.671

Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts

2.203

3.917

Annað

542

531

Alls

25.893

33.720

 

Heildarfjárhæðin sem greidd er út við álagninguna er 33,7 ma.kr sem er 30% hækkun frá fyrra ári. Þá mun ríkissjóður greiða 6,4 ma.kr í barnabætur 1. október næstkomandi auk vaxtastuðningsins.

 

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum