Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2024 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Washington

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem hefst í Washington D.C. á morgun og stendur fram á fimmtudag. Þar verður þess minnst að 75 ár eru liðin frá stofnun bandalagsins.

Sem fyrr verða málefni Úkraínu í brennidepli og lögð áhersla á að árétta samstöðu meðal bandalagsríkja um áframhaldandi og öflugan stuðning við varnarbaráttu landsins. Volodómír Selenskí Úkraínuforseta hefur verið boðið á fundinn.

Þá verður farið yfir framkvæmd ákvarðana síðustu leiðtogafunda um aðlögun og styrkingu á fælingar- og varnarstöðu bandalagsins, og áhersla lögð á framlög bandalagsríkja til varnarmála. Einnig taka leiðtogar samstarfsríkja bandalagsins í Asíu og Kyrrahafi (Ástralía, Japan, Nýja-Sjáland og Suður-Kórea) þátt í einni fundarlotu ásamt Evrópusambandinu. 

Leiðtogafundurinn í Washington verður sá fyrsti sem Svíþjóð tekur þátt í sem fullgilt bandalagsríki. Fundurinn er jafnframt síðasti leiðtogafundur Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins en eins og kunnugt er tekur Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands, við keflinu 1. október næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta