Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Greining á stöðu markmiðs heilbrigðisstefnu um rétta þjónustu á réttum stað

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að greina hver sé staðan á því markmiði heilbrigðisstefnu að notendur heilbrigðisþjónustu fái þá þjónustu sem þeir þarfnast, á réttu þjónustustigi og að þjónustan sé samfelld. Í heilbrigðisstefnunni eru talin 13 stefnumið sem þarf að uppfylla til að ná settu marki. Hlutverk starfshópsins verður að greina hvað áunnist hefur í þessu skyni og jafnframt að gera tillögur um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að ná þeim árangri sem að er stefnt.

Þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 3. júní 2019. Í henni ályktar Alþingi að leiðarljós stefnunnar sé að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt. Sett eru fram sjö meginviðfangsefni til að sú framtíðarsýn sem birtist í stefnunni verði að veruleika. Eitt þeirra viðfangsefna er að notendum heilbrigðisþjónustu sé tryggð rétt þjónusta á réttum stað. Í því felst að skapa kerfi sem tryggir samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi þar sem jafnframt er gætt að hagkvæmni og jafnræði við veitingu þjónustunnar.

Fjallað er um stefnumiðin 13 sem starfshópnum er falið að greina í ályktun Alþingis og þau eru jafnframt talin hér að neðan. Stefnumiðin lúta m.a. að því hvernig skýra þurfi betur hlutverk þjónustuveitenda, efla faglegt starf, jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu, skilgreina umfang þjónustu sem byggir á samningum í samræmi við þarfir notenda, efla dag- og göngudeildarþjónustu sjúkrahúsa o.fl.

Eins og fram kemur í skipunarbréfi starfshópsins hefur margt breyst frá því að heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt fyrir fimm árum. Margvíslegar áskoranir blasa við þjóðinni sem kalla á skýra sýn og nýja nálgun við úrlausn verkefna og veitingu heilbrigðisþjónustu.

Auk framangreindra verkefna starfshópsins er honum jafnframt ætlað að skoða hvernig stigun heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annars, og þriðja stigs þjónustu birtist þar sem mörk milli þjónustustiga eru ekki skýr og hvernig sú flokkun nýtist við að leiða notendur þjónustunnar í gegnum kerfið þar sem fyrsta stigs þjónusta á að vera fyrsti viðkomustaðurinn.

Skipan hópsins:

  • Gylfi Ólafsson, formaður.
  • Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
  • Helgi Þór Leifsson, tilnefndur af Sjúkrahúsinu á Akureyri.
  • Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
  • Þórarinn Guðnason, tilnefndur af Samtökum heilbrigðisfyrirtækja.
  • María Fjóla Harðardóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.
  • Arnór Víkingsson, tilnefndur af Landspítala.
  • Hrefna Þengilsdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis.
  • Sigurður Helgi Helgason, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands.

Starfsmaður hópsins er Hrafnhildur Ýr Erlendsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu. 

Rétt þjónusta á réttum stað – stefnumið heilbrigðisstefnu

Til að skapa heildrænt kerfi sem tryggi samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni og gæti að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu eru stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:

  1. Allir landsmenn hafi aðgang að skýrum upplýsingum um hvernig og hvert skuli leitað eftir heilbrigðisþjónustu.
  2. Heilbrigðisþjónustan verði skilgreind sem fyrsta stigs þjónusta (heilsugæslan), annars stigs þjónusta (sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss) og þriðja stigs þjónusta (þjónusta veitt á háskólasjúkrahúsi eða í nánu samstarfi við það).
  3. Hlutverk þjónustuveitenda verði skilgreint og þjónustustýring tryggi að sjúklingar fái þjónustu á réttu þjónustustigi.
  4. Heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður notenda þegar þeir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Heilsugæslan hafi yfir að ráða starfsfólki sem hefur víðtæka þekkingu. Starf heilsugæslunnar einkennist af þverfaglegri teymisvinnu þar sem unnið verði að stöðugum umbótum í nánu samstarfi við félagsþjónustuna með hagsmuni notenda í forgrunni.
  5. Heilsugæslan taki virkan þátt í heilsueflingu og bjóði upp á ráðgjöf um heilbrigðan lífsstíl fyrir einstaklinga og hópa.
  6. Umfang annars stigs þjónustu utan sjúkrahúsa verði á hverjum tíma ákveðið í samningum við Sjúkratryggingar Íslands í samræmi við þarfir þeirra sem þurfa á þjónustu að halda.
  7. Aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði bætt með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum.
  8. Biðtími eftir heilbrigðisþjónustu byggist á faglegu mati og verði innan þeirra marka sem kveðið verði á um í samningum við þjónustuveitendur.
  9. Byggingarframkvæmdum Landspítalans við Hringbraut og við Sjúkrahúsið á Akureyri verði lokið með góðri aðstöðu til að veita bráða og valkvæða heilbrigðisþjónustu og öfluga þjónustu á dag- og göngudeildum.
  10. Hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss hafi verið styrkt og þar verði veitt hátækniþjónusta og einnig þriðja stigs þjónusta sem ekki sé hægt að veita annars staðar á landinu.
  11. Hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahúss og veitanda annars og þriðja stigs þjónustu fyrir tilgreindar heilbrigðisstofnanir verði skilgreint og styrkt.
  12. Sjúkratryggingar Íslands og Landspítali hafi skipulagt samstarf við háskólasjúkrahús annars staðar á Norðurlöndunum um hátækniþjónustu sem ekki er unnt að veita hér á landi.
  13. Sjúkrarúm á sjúkrahúsum nýtist þeim sjúklingum sem þurfa á meðferð á því þjónustustigi að halda og unnt er að útskrifa án tafa að meðferð lokinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum