Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2024 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Traust til opinberrar stjórnsýslu og fjölmiðla almennt gott

Traust mælist hátt til opinberrar stjórnsýslu og fjölmiðla á Íslandi í samanburði við önnur OECD-ríki. Félagslegt traust mælist jafnframt hátt hér á landi og fer vaxandi á milli mælinga.

Undanfarið hefur dregið lítillega úr trausti almennings til stjórnvalda í ríkjum OECD, en verðbólga, fjárhagsáhyggjur og öryggis- og varnarmál voru ofarlega á baugi hjá svarendum í ríkjunum. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar könnunar OECD um traust sem kynnt var í dag.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var í 30 aðildarríkjum OECD í október og nóvember á síðasta ári, segja tæplega fjórir af hverjum tíu svarendum á Íslandi að þeir beri nokkuð eða mikið traust til stjórnvalda á landsvísu en um helmingur treystir þeim ekki. Dregið hefur úr trausti til stjórnvalda frá síðustu könnun 2021. Niðurstöðurnar hér á landi eru undir meðaltali OECD-ríkjanna hvað þetta varðar.

Traust til stjórnsýslunnar

Að meðaltali mælist traust á opinberri stjórnsýslu hér á landi um 64% sem er nokkuð hærra en almennt í þátttökuríkjum OECD. Sömuleiðis er traust til lögreglu hátt í alþjóðlegum samanburði þótt það hafi dregist lítillega saman á milli mælinga sem á einnig við um traust til dómstóla, sem minnkar um fjögur prósentustig. Alþingi er sú stofnun sem nýtur minnst trausts hér á landi eða um 36%.

 

Traust til opinberra aðila á Íslandi

Þegar horft er til meðaltals allra þátttökuríkja í könnuninni reynast hóparnir sem treysta stjórnvöldum og treysta þeim ekki vera nokkurn veginn jafnstórir. Um þrjátíu og níu af hundraði segjast bera nokkuð mikið eða mikið traust til ríkisstjórnar sinnar á meðan 44% segjast bera lítið eða ekkert traust til hennar en það hlutfall var 41% árið 2021. Hlutfall þeirra sem bera mikið eða nokkuð mikið traust til stjórnvalda á landsvísu hér á landi mælist um 36%, eða þremur prósentustigum undir meðaltali OECD-ríkjanna.

Athygli vekur að félagslegt traust þ.e. meðal samborgara, mælist hærra hér á landi (82%) en að meðaltali í þátttökuríkjum OECD (78%). Þá jókst traust til fjölmiðla, sem flytja fréttir á Íslandi, milli mælinga. Þannig sögðust 62% svarenda bera nokkuð mikið eða mikið traust til fjölmiðla, en 53% að meðaltali innan OECD.

Drifkraftar trausts á Íslandi

Samkvæmt könnuninni hafa ýmsir þættir áhrif á traust almennings til opinberra aðila hér á landi. Þannig er yngra fólk, svarendur sem hafa fjárhagslegar áhyggjur, eru minna menntaðir og svarendur sem kusu ekki ríkjandi valdhafa líklegri til að bera minna traust til stjórnvalda. Er það í samræmi við niðurstöður könnunarinnar í heild.

Yfir sextíu af hundraði svarenda segjast ánægð með dagleg samskipti og þjónustu opinberra aðila á Íslandi sem er töluvert hærra en OECD meðaltalið. Þá telja 76% svarenda að auðvelt sé að nálgast upplýsingar um opinbera þjónustu hér á landi en 67% að meðaltali svarar sömu spurningu játandi í öðrum OECD-ríkjum. Sömuleiðis segist meirihluti svarenda (66%), sem hefur nýlega reynslu af menntakerfinu, vera ánægður með það, samanborið við 57% að meðaltali í OECD-ríkjunum.

Í niðurstöðum er dregið fram að almennt geti stjórnvöld gert betur í að bregðast við ábendingum borgara. Tæplega fjörutíu af hundraði svarenda á Íslandi telja líklegt að almenningur geti haft áhrif á ákvarðanir stjórnvalda á sveitarstjórnarstigi sem er eilítið hærra hlutfall en að meðaltali í þátttökuríkjum OECD. Hins vegar telja aðeins 23% svarenda að þau geti haft áhrif á ákvarðanir ríkisstjórnar og þriðjungur telur að opinber þjónusta verði bætt þegar kvartað er undan henni. Báðar þessar mælingar eru undir meðaltali OECD.

Verðbólga og fjárhagsáhyggjur auk öryggis- og varnarmála ofarlega á baugi

Niðurstöður könnunarinnar sýna að á undanförnum árum hefur lítillega dregið úr trausti almennings á stjórnvöldum í ríkjum OECD þótt það mælist enn hærra en það gerði í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar árið 2008. Að mati OECD er líklegt að stórir viðburðir í upphafi áratugarins líkt og heimsfaraldur, vaxandi verðbólga og ólga í alþjóðamálum vegna stríðsátaka hafi áhrif á viðhorf almennings gagnvart stjórnvöldum og frammistöðu þeirra við úrlausn flókinna viðfangsefna.

Að meðaltali nefna um sextíu af hundraði svarenda könnunarinnar innan OECD að vaxandi verðbólga sé meðal mikilvægustu úrlausnaefna samtímans. Um þriðjungur svarenda nefnir að fátækt og félagslegur ójöfnuður séu áhyggjuefni og 22% atvinnuleysi. Um 71% þátttakenda gefa til kynna að þeir hafi að einhverju leyti áhyggjur af fjárhag og efnahagslegri velferð heimilis síns á næstu einu til tveimur árum. Þá hefur vaxandi hópur fólks  áhyggjur af öryggis- og varnarmálum, upplýsingaóreiðu og dreifingu falsfrétta á netinu.

Nánar um könnunina

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 3. október til 4. nóvember 2023 af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir forsætisráðuneytið. Um var að ræða netkönnun á íslensku meðal 1363 einstaklinga átján ára og eldri. Í úrtakinu voru 3623 einstaklingar og var svarhlutfall því 37,6%.

Gögnum könnunarinnar var safnað á tímabilinu 20. september til 12. desember 2023 í 30 ríkjum OECD. Gild svör voru alls 58.230. Í flestum löndum fór gagnasöfnun fram á netinu. Í nokkrum var gögnum safnað með blöndu af símtölum, viðtölum og skriflegri þátttöku.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum