Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2024 Utanríkisráðuneytið

Íslensk myndlist áfram í öndvegi á sendiskrifstofum Íslands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, handsala nýja samstarfssamninginn. - mynd

Nýr samstarfssamningur um kynningu á íslenskri myndlist erlendis var undirritaður af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Ingibjörgu Jóhannsdóttur, safnstjóra Listasafns Íslands, í dag. Með samningnum er tryggt að  íslensk myndlist verði áfram í öndvegi á sendiskrifstofum erlendis og grunnur lagður að framtíðarsamstarfi utanríkisráðuneytisins og listasafnsins.  

,,Utanríkisþjónustan leggur  áherslu á menningarsamstarf og kynningu á íslenskri list og skapandi greinum erlendis“ segir Þórdís Kolbrún. ,,Samstarfið við Listasafnið er okkur dýrmætt og hefur stuðlað að því að sendiskrifstofur Íslands erlendis eru ríkulega búnar íslenskri myndlist eftir fjölbreytta flóru íslenskra listamanna þannig að eftir er tekið.“ 

Fyrsti samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og Listasafns Íslands var gerður árið 2021. Markmið samstarfsins er að vekja athygli á íslenskri myndlist erlendis og miðað er við að allt að 150 verk úr safneign Listasafnsins séu að jafnaði til sýnis á sendiskrifstofum Íslands hverju sinni.  

,,Það er mjög ánægjulegt að geta haldið áfram því samstarfi sem efnt var til með fyrri samningi“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir. „Nú eru verk frá Listasafni Íslands eftir um 50 listamenn á 19 sendiskrifstofum um allan heim. Fjöldi gesta heimsækir þessar sendiskrifstofur og hefur þar með tækifæri til að fá innsýn í íslenska samtímalist og listasögu. Það er mikilvægt að nýta sem best þau tækifæri sem opnast í gegnum sendiskrifstofur Íslendinga erlendis. Næstu skref eru að auka fræðslu og efna til viðburða í tengslum við verkefnið.“  

Við val á verkunum horfir Listasafnið meðal annars til tengsla íslensks listafólks við viðkomandi ríki og mikilvægi hvers markaðssvæðis fyrir íslenska myndlist. Myndlistarmiðstöð veitir ráðgjöf varðandi áherslumarkaði og hvar mikilvægast sé að kynna verk íslenskra samtímalistamanna. Með nýja samningnum verður nú lögð enn ríkari áhersla á kynningu verkanna, meðal annars með QR kóðum við hvert verk til upplýsingar og viðburðum fyrir fagfólk á sviði myndlistar. 

  • Frá undirritun nýja samstarfssamningsins i Listasafni Íslands í morgun. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum