Forsætisráðherra sækir fund evrópskra þjóðarleiðtoga í Bretlandi
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mun sækja leiðtogafund hins pólitíska bandalags Evrópuríkja (e. European Political Community, EPC) í Bretlandi á morgun.
Öryggismál í Evrópu, þ.m.t. ástandið í Úkraínu og orkuöryggi álfunnar, ásamt vernd lýðræðisins verða í forgrunni á fundinum. Þetta er fjórði fundurinn af þessu tagi, en gert er ráð fyrir að leiðtogar um 40 Evrópuríkja ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og alþjóðastofnana sæki fundinn að þessu sinni.
Forsætisráðherra verður með innlegg á hringborði um stöðu lýðræðis í skugga upplýsingahernaðar og falsfrétta. Þá mun hann eiga tvíhliða fundi með forsætisráðherrum Spánar, Lettlands og Liechtenstein, utanríkismálastjóra ESB, auk forseta Kósóvó og Sviss.