Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2024 Utanríkisráðuneytið

Sumarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna lokið í Genf

Frá sumarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. - mynd

Sumarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem hófst 18. júní sl, er lokið eftir fjögurra vikna fundarsetur og samningaviðræður. 

Ísland tók virkan þátt í samningaviðræðum vegna fjölda ályktana og beitti sér sérstaklega í jafnréttismiðuðum ályktunum, en þær samningaviðræður eru jafnframt í hópi þeirra erfiðustu sökum bakslags í mannréttindum kvenna og stúlkna og hinsegin fólks á heimsvísu. 

Í lotunni, sem var jafnframt sú fimmtugasta og sjötta í röðinni, tók mannréttindaráðið 25 ályktanir til umfjöllunar. Kallað var eftir atkvæðagreiðslu um þrjár og aðrar 22 voru samþykktar án atkvæðagreiðslu eftir að 20 breytingartillögur við fimm þeirra voru felldar í atkvæðagreiðslu. 

Þá var jafnframt skipaður nýr skýrslugjafi vegna Íran í tengslum við ályktun ráðsins um stöðu mannréttinda í landinu, sem Ísland hefur farið fyrir með góðum árangri undanfarin ár. 

Ísland á í nánu samstarfi við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin sem héldu uppteknum hætti og fluttu 29 sameiginleg ávörp í  fundarlotunni. Umræður spönnuðu ólíka málaflokka, allt frá stöðu mannréttinda í einstaka ríkjum til umræðu um málfrelsi, umhverfismál og mannréttindi kvenna og stúlkna, barna og hinsegin fólks. 

Ísland flutti 11 ávörp fyrir hönd ríkjahópsins og kom flutningur tveggja þeirra í hlut Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra sem var stödd í Genf meðan á annarri viku fundarlotunnar stóð. 

Auk þessa nýtti utanríkisráðherra vinnuferðina til Genfar til að vekja athygli á  framboði Íslands til setu í mannréttindaráðinu fyrir tímabilið 2025-2027, en Ísland nýtur nú stöðu áheyrnarríkis. Kosning til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fer fram í haust og er Ísland í framboði  ásamt Spáni og Sviss í þrjú sæti Vesturlanda. 

Ísland flutti jafnframt ávarp í umræðu við mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og tók undir 14 sameiginlegar yfirlýsingar í flutningi ólíkra ríkja, þar af tvær um málefni Palestínu og aðrar tvær um málefni Úkraínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta