Embætti skrifstofustjóra á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála laust til umsóknar
Embætti skrifstofustjóra á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála í innviðaráðuneytinu hefur verið auglýst laust til umsóknar. Innviðaráðherra skipar í embættið til fimm ára að undangengnu mati hæfisnefndar. Umsóknarfrestur er til og með 12. ágúst en auglýsing um embættið var birt á Starfatorgi í dag.
Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála hefur umsjón með stefnumótun á sviði húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála og framkvæmd laga í samræmi við stefnu stjórnvalda og alþjóðlegar skuldbindingar.
Skrifstofustjóri leiðir starf skrifstofunnar undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra og ber ábyrgð á stjórnun, rekstri og faglegu starfi skrifstofunnar í samræmi við áætlanir og markmið. Hann hefur umsjón með stefnumótun á málefnasviðum skrifstofunnar, forgangsraðar verkefnum, tekur virkan þátt í samhæfingu áætlana á málefnasviði ráðuneytisins og leiðir víðtækt samráð við stofnanir og hagaðila.